Framtíðarsýn fangelsismála

Hér verða lagðar fram tillögur að þrepaskiptu umbunarkerfi í íslensku fangelsiskerfi. Tillögurnar byggja á þeirri sýn að fangelsin eigi ekki að vera geymslur eða einangrunarúrræði sem skila einstaklingum verr settum út í samfélagið en þeir voru í upphafi afplánunar. 

Hvatakerfi til eflingar
Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í íslensku samfélagi vegna fangelsismála. Tel ég brýnt að leggja til endurhæfingar sem byggir á ábyrgð, trausti og einstaklingsmiðaðri nálgun. Þrátt fyrir að ýmis úrræði séu fyrir hendi innan íslenska fangelsiskerfisins, þá vantar hvata sem tengir virkni og bataferli fanga í formi umbunar.  

Tengja þátttöku við tækifæri
Fangavist felur í sér tímabundna frelsissviptingu en hún þarf ekki að fela í sér stöðnun. Eins og staðan er í dag eyðir meirihluti fanga tíma sínum í rútínuleysi eða neyslu, með litla sem enga virkni. Það vantar raunveruleg markmið, stuðning og hvata. Afleiðingin er sú að stöðnun eða afturför verður norm, sjálfstraust dvínar og færni til að fóta sig í lífinu að afplánun lokinni minnkar verulega.

Virkni eða ábyrg hegðun skiptir engu máli þegar kemur að dagsleyfum, fjölskylduleyfum eða reynslulausn. Það er aðeins horft á staðlað skjal þar sem eitt á við um alla. Ekki er litið á þátttöku, framfarir eða breytta hegðun.

Það eru engir skýrir hvatar til staðar í núverandi kerfi fyrir fanga að gera betur. Það á að tikka í einhver box fyrir að vera virkur í námi, vinnu, þerapíu eða annarri endurhæfingu sem er í boði. Þess vegna legg ég til þrepaskipts umbunarkerfis með persónulegumati.

Þrepaskipt umbunarkerfi: 

Þrep 1: Virkni og mæting

  • Einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun með mælanlegum markmiðum
  • Þátttaka í námi, starfi eða meðferðarúrræðum
  • Ábyrgt viðmót og jákvæð hegðun

Umbun: Aukinn aðgangur að tómstundum, aukin réttindi innan fangelsis eins og til dæmis leyfi fyrir fartölvu

Þrep 2: Framvinda og árangur

  • Viðvarandi virkni og stöðugleiki metin yfir tiltekið tímabil
  • Mælanlegur árangur eða lokin þátttaka í námskeiðum, verkefnum eða meðferð
  • Endurmat á meðferðaráætlun í samráði við fagfólk

Umbun: Hægt að vinna af sér daga í afplánun, jafnvel opna á helming afplánunar í stað tvo þriðju.Möguleiki á dagsleyfi, flutningur á Vernd eða rafrænt eftirlit

Þrep 3: Traust og undirbúningur að frelsi

  • Þátttaka í starfsþjálfun, samfélagsverkefnum eða styrktum úrræðum utan fangelsis 
  • Lokamat og sjálfsmat í samstarfi við tengilið og stuðningsaðila
  • Tengslamyndun við stuðningsnet utan fangelsis

Umbun: Reynslulausn,aðstoð við atvinnu- og húsnæðisleit og markviss samfélagsaðlögun

Framkvæmd
Tillagan felur í sér að þrepaskipt umbunarkerfi verði innleitt sem tilraunaverkefni í fangelsum undir stjórn Fangelsismálastofnunnar. Þar verði:

  • Þróuð skýr viðmið um þátttöku, umbun og matsferla
  • Sett upp rafrænt skráningarkerfi
  • Unnið í samráði við fanga, fagfólk, sjálfboðaliða og meðferðaraðila
  • Skilgreind ábyrgð fagfólks og stofnana á eftirfylgni
  • Árangur metinn út frá fyrirfram ákveðnum mælikvörðum

Að lokinni tilraun verði kerfið metið með tilliti til hegðunar innan fangelsis, árangurs úrræða, endurkomutíðni og samfélagsaðlögunar eftir afplánun.

Til umhugsunar
Ef við ætlum að bæta íslenskt refsivörslukerfi þá verðum við að hætta að líta á afplánun sem geymslu. Við verðum að tryggja að þeir sem vilja axla ábyrgð fái raunverulegt tækifæri til að breyta lífi sínu ekki einungis til að afplána, heldur til að byggja sig upp. Uppbygging ætti að vera meginmarkmið í meðferð fanga.

Með þrepakiptu umbunarkerfi sköpum við aðstæður þar sem fangelsi verða ekki lengur geymslur heldur virkar miðstöðvar endurhæfingar, með það markmið að endurbyggja, bæta og gera einstaklinginn hæfari til að takast á við sjálfan sig þar sem hann hefur öðlast verkfæri sem byggja á von, trú og trausti.


Virðing fanga mæld í excel-skjali

Það hefur lengi þótt þægilegt að horfa á málefni fanga með blinda auganu. En ef við viljum raunverulega standa undir nafni sem siðmenntað þjóðfélag, þá verðum við að endurskoða hvernig komið er fram við fanga, ekki síst hvað varðar launakjör og rétt þeirra til að viðhalda tengslum við fjölskyldu sína.

Vinna án virðingar

Laun fanga eru skammarlega lág. Þeir sem stunda vinnu, nám eða taka þátt í virkni innan fangelsis fá 415 krónur á tíman. Þetta gerir lítið úr vinnuframlagi þeirra. Þó einstaklingur sé sviptur frelsi, losnar hann ekki undan ábyrgð. Hann þarf að borga reikninga, standast skil og er jafnvel með fjölskyldu og greiðir barnameðlög. Hver er ávinningurinn ef að hann neyðist til að fara í gjaldþrot og missir allt sitt? Ef fangi kemur út reiður og örvæntingarfullur, þá höfum við sem samfélag brugðist honum.

Óaðgengilegt fjölskyldulíf

Ofbeldi finnst víða þegar við skoðum hvernig fangelsiskerfið meðhöndlar mannleg tengsl. Reglur um dagsleyfi og fjölskylduleyfi eru bæði stífar og ósveigjanlegar og virðast ekki miðað við mannúð heldur gamaldags tortryggni. Þeir sem geta sótt um fjölskylduleyfi eru fangar sem afplána a.m.k. 14 ára dóm. Þessar reglur útiloka að meginn þorri fanga geti fengið fjölskylduleyfi. Og eytt nótt með fjölskyldu sinni þriðja hvern mánuð. 

Til að bæta gráu ofan á svart þarf fangi að hafa verið í dagsleyfum í tvö ár áður en hann getur sótt um fjölskylduleyfi og til þess að fá fyrsta dagsleyfið þarf hann að hafa afplánað þriðjung dómsins. Að það sé ekki neinn hvati í kerfinu t.d. fyrir góða hegðun eða fyrir að vera virkur í námi, starfi eða endurhæfingu. Kerfið horfir aðeins á excel-skjal sem er tengt við dagatal, ekki einstaklinginn.

Þegar Vernd verður múr frekar en brú

Það er til umhugsunar að þeir sem eru komnir á Vernd, þar sem markmiðið á að vera félagsleg aðlögun, hafa ekki rétt á fjölskylduleyfi. Ef þeir eru ekki komnir á það áður en þeir koma á Vernd. Sá sem er kominn út í samfélagið að degi til og hefur sýnt að hann getur axlað ábyrgð, fær ekki að gista heima hjá sér, hjá konu og börnum, þriðja hvern mánuð. Af hverju? Er það vegna þess að stjórnendur Verndar hafa lagst gegn því eða er það Fangelsismálastofnun? Stjórnast kerfið af fortíðardraugum?

Hver er tilgangurinn með Vernd ef ekki að hjálpa einstaklingum að stíga næsta skref út í samfélagið? Er Vernd er orðið fangelsi undir nýju nafni, þar sem valdið hefur stigið stjórnendum til höfuðs?

Endurskoðun eða áframhaldandi vanvirðing

Við verðum að endurskoða þetta kerfi frá grunni. Af hverju eru fjölskylduleyfi tengd við lengd dóms, ekki einstaklinginn sjálfan? Af hverju látum við fastar tímasetningar ráða frekar en persónubundið mat?

Fangelsi eiga ekki að vera kaldir steinveggir sem tálmar einstakling frá lífinu og almennum tengslum við samfélagið. Þau eiga að vera miðstöðvar sem bæta/endurhæfa og skila betri einstakling út í samfélagið, þau eiga að vera brú að nýju lífi.

Við getum ekki boðað mannréttindi og talað fyrir endurhæfingu eða betrun, en svo þegar það kemur að framkvæmt þá er engin við. Ef við viljum sjá raunverulega samfélagslega ábyrgð, þá verðum við að hækka laun fanga, tryggja og styrkja tengsl fjölskyldna og meta einstaklinga út frá eigin verðleikum, hættum að einblína á tíma dóms og Excel-skrár.

Meðan ekkert breytist, sitjum við föst í kerfi fortíðar, þar sem refsing felur ekki aðeins í sér frelsissviptingu, heldur mann fyrirlitningu án tengsla og tækifæra til nýs lífs. 


Útlendingar fá silki meðferð í fangelsiskerfinu

Einn af hornsteinum réttarríkisins er sú meginregla að allir séu jafnir fyrir lögum. En þegar rýnt er í meðferð erlendra ríkisborgara í íslensku fangelsiskerfi vakna spurningar: Gildir þetta jafnræði í raun, eða er það einungis orðin tóm?

Tökum tvö dæmi:

Dæmi 1:
Erlendur ríkisborgari dæmdur í 16 ára fangelsi afplánar helming dóms, 8 ár. Hann situr 5 ár í lokuðu og opnu fangelsi, síðan 2 ár á Vernd og að lokum 1 ár á ökklabandi. Að lokinni afplánun er honum vísað úr landi. Í raun er hann aðeins 5 ár innan múra fangelsa. Hann er í 3 ár að spóka sig í Íslensku samfélagi,áður en honum er vísað úr landi.

Íslenskur ríkisborgari í sömu stöðu þarf hins vegar að afplána 7 ár og 8 mánuði í lokuðu og opnu fangelsi áður en hann kemst á Vernd. Hann er í 2 ár á Vernd og 1 ár á ökklabandi. Hann afplánar því samtals 10 ár og 8 mánuði. Hann er 2 árum og 8 mánuðum lengur í fangelsi.

Dæmi 2:
Erlendur ríkisborgari með 10 ára dóm afplánar aðeins 2 ár í fangelsi, fær síðan 2 ár á Vernd og 1 ár á ökklabandi, alls 5 ár. Þar af er hann aðeins 2 ár innan veggja fangelsis, hann er í 3 ár að spóka sig í Íslensku samfélagi,áður en honum er vísað úr landi.

Íslenskur ríkisborgari í sambærilegri stöðu situr 3 ár og 8 mánuði í fangelsi, síðan 2 ár á Vernd og 1 ár á ökklabandi, alls 6 ár og 8 mánuðir. Hann er 1 ár og 8 mánuðir lengur.

Rökin eru veik: „Þeir eru fjarri sínum“

Það er gjarnan rökstutt að það sé mun erfiðara fyrir erlenda ríkisborgara að taka út dóm á íslenskri grund, þeir séu fjarri fjölskyldu og menningu. En hvað ef fanginn á maka á Íslandi? Hvað ef hann fær heimsóknir nokkrum sinnum í viku?

„Ef erlendur einstaklingur á maka á Íslandi, á hann þá ekki að sitja 2/3 eins og Íslendingur? Er fangelsisvist ekki jafnt þungbær fyrir báða þessa einstaklinga?“

Rökin standast ekki þegar raunveruleikinn er skoðaður. Að hann búi við félagslega einangrun þegar hann fær svo að taka þátt í daglegu lífi samfélagsins í allt að 3 ár, þvert á móti getur hann tengst samfélaginu mjög sterkt. Það sterkt að hann stofnar til fjölskyldu, eignast börn og giftir sig, þá er málið orðið töluvert flóknara.

Yfirfull fangelsi og röng forgangsröðun

Fangelsiskerfið glímir við alvarlegt plássleysi, árlega fyrnast um 100 dómar einfaldlega vegna skorts á rýmum. Samt eru opin úrræði eins og Kvíabryggja og Sogn í stórum stíl nýtt undir erlenda ríkisborgara.

  • Kvíabryggja: Um 50% fanga eru erlendir ríkisborgarar
  • Sogn: Um 33% fanga eru erlendir ríkisborgarar

Þetta eru einstaklingar sem hafa engin tengsl við Ísland og eru vísað úr landi að afplánun lokinni, með endurkomubanni. Samt ganga þeir fyrir í úrræðum sem ætlað er að aðstoða fanga við að komast aftur út í samfélagið.

Endurhæfing eða losun á plássi?

Ef opin úrræði eiga að þjóna því hlutverki að aðstoða fanga við samfélagslega endurkomu, þá eiga þau að vera fyrir þá sem eiga búsetu á Íslandi, einstaklinga sem þurfa aðstoð við að fóta sig að nýju í íslensku samfélagi.

Ef úrræðin eru hins vegar notuð til að rýma pláss í lokuðum fangelsum, hefur tilgangur kerfisins að endurhæfingu alvarlega farið úrskeiðis.

Engin ábyrgð, engin eftirfylgni

Íslenskir fangar fá reynslulausn eftir að hafa afplánað huta dóms, fara á skilorð yfirleitt í 1–5 ár allt eftir lengd dóms en þó með skilyrðum. Erlendir ríkisborgarar sem fá reynslulausn eftir helming eru einfaldlega sendir úr landi, án skilorðs, án ábyrgðar, án eftirfylgni. Þeir eru einfaldlega lausir allra mála.

Þeir sem hafa hvorki búsetu né framtíðaráform á Íslandi fá þannig mildari meðferð en þeir sem búa á Íslandi, eiga börn, fjölskyldu og þurfa að endurreisa líf sitt innan samfélagsins.

Ójafnræði sem bitnar á þeim sem ætla að snúa aftur til lífsins

Hvernig getur íslenskur ríkisborgari með fjölskyldu þurft að sitja umtalsvert lengur en erlendur ríkisborgari sem fær sömu fríðindi og hefur enga tengingu við landið, einungis vegna þess að hann er Íslendingur og ætlar að búa á Íslandi?

Ef við viljum sjá raunverulegt jafnræði, þá á jafnt að gilda þegar veita á reynslulausn eftir afplánun helmings refsingar, eða þá að íslenskir fangar gangi fyrir í þeim úrræðum sem miða að samfélagslegri endurhæfingu.

Erlendum ríkisborgurum er vísað verður úr landi og eiga því að ljúka dómi í lokuðu fangelsi, nema sérstakar aðstæður krefjist annars. Reynslulausn á ekki að vera stjórntæki sem leysir kerfisvanda tímabundið, hún á að þjóna tilgangi, ekki hentisemi.

Réttlæti byggir ekki á hentugleika

Réttarríki má ekki byggjast á hentisemi eða pólitískri hagkvæmni. Jafnræði á ekki aðeins að vera til umræðu á tyllidögum, það á að endurspeglast í öllum þáttum kerfisins, þar með talið afplánun og meðferð fanga.

Það er orðið tímabært að endurskoða núverandi reglur og kerfi. Og horfast í augu við þá spurningu sem flestir forðast: Hver er tilgangurinn með þessu kerfi? 


Blóðmerahald og ábyrgð í ræktun

Mikil umræða hefur verið um blóðmerahald á undanförnum árum og hvort það sé ill meðferð á dýrum. Sú gagnrýni á vissulega rétt á sér í sumum tilvikum. En ef ræða á dýravelferð af alvöru, verður líka að horfa á heildarmyndina. Er ekki líka hægt að segja að það sé ómannúðlegt að halda dýr á húsi, allt árið um kring?

Ill meðferð dýra er ekki bundin við eina aðferð heldur viðhorf og framkvæmd, sama hvort dýrin eru nýtt til afurðaframleiðslu eða sem áhugamál. Það sem skiptir máli er hvernig aðbúnaður, meðferð og ábyrgð er háttað.

Blóðmerahald hluti af landbúnaði

Blóðmerahald er hluti af stærra samhengi búfjárhalds og kjötræktar. Í þessu tilviki er blóðið nýtt til framleiðslu hormónsins PMSG (e. equine chorionic gonadotropin), sem er notað til að auka frjósemi gylta í svínarækt erlendis. Það er engum blöðum um að fletta að framkvæmdin er umdeild, hér er um að ræða iðnað sem þjónar alþjóðlegum markaði sem þarf að viðurkenna, sama hvert siðferðismatið er.

En það sem við verðum að ræða af meiri alvöru er hvernig þessu er háttað hér á landi. Hver ber ábyrgð, hver tekur áhættuna og hver hagnast?

Blóðtökur standa í tvo mánuði

Blóðtaka fer að jafnaði fram tvisvar til átta sinnum á tveggja mánaða tímabili samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun. Þetta er stíft inngrip á stuttum tíma. Ef ekki er rétt að staðið, getur það valdið líkamlegri og andlegri vanlíðan hjá hryssum. Hér skiptir því öllu máli hvernig aðbúnaður og meðferð er háttað.

Það á að vera sjálfsagt að hryssur sem notaðar eru til blóðgjafar fái ekki aðeins gras að bíta heldur viðeigandi fóðurbæti eftir blóðtöku. Líkt og þegar fólk fer í blóðbankann, þar er boðin hressing og hvíld, og ætti að sýna hryssunum sömu virðingu. Það sem vantar er kerfi sem tryggir bændum sanngjarnt verð fyrir blóðið, að þeir geti haft góða aðstöðu og sinnt dýrunum af virðingu.

Gróðinn á einn stað

Rekstrarformið sjálft er einnig umhugsunarvert. Fyrirtækið Ísteka, sem safnar og selur blóð, rekur einnig sín eigin blóðmerastóð. Það situr báðum megin borðsins, annars vegar sem kaupandi blóðs frá bændum og hins vegar sem samkeppnisaðili þeirra. Þetta er eins óheilbrigt og hægt er.

Á sama tíma og Ísteka hefur tilkynnt um tug- og jafnvel hundruð milljóna króna hagnað (t.d. 324 milljónir króna árið 2022, samkvæmt ársreikningi þeirra), á meðan bændur fá greitt innan við 20.000 krónur á hryssu fyrir tímabilið. Þegar kostnaður við fóðrun, aðhlynningu og aðstöðu er dreginn frá, stendur bóndinn vart eftir með laun fyrir vinnu sína, þetta er ekkert annað en arðrán.

Allt blóð sem er flutt út skilar sér í gjaldeyristekjum inn í landið, ekki má gera lítið úr því.

Ef bændum væri tryggt réttmætt verð fyrir blóð gætu þeir sinnt dýrunum betur, hugað að aðbúnaði þeirra af alvöru og sinnt búskapnum af fagmennsku. Í staðinn neyðast þeir til að gera sem minnst fyrir sem mest, sem bitnar á hryssunum.

Ábyrg skráning í ræktunarkerfið

Þeir sem styðja blóðmerahald benda oft á að hryssurnar hafi þá tilgang, án þess yrðu þær sendar í sláturhús. En það þýðir ekki að slíkar hryssur eigi sjálfkrafa erindi inn í ræktun íslenska hestsins. Þvert á móti. Ef hryssur eru seldar í blóðmerahald og koma úr viðurkenndri ræktun, þarf að liggja skýrt fyrir að þær hafi verið metnar sem ónothæfar í ræktun af ræktanda, t.d. vegna skapgerðar, líkamsbyggingar eða erfðagalla.

Það ætti því að vera skráð í WorldFeng að hryssa sé nýtt til blóðmerahalds. Slík skráning ætti jafnframt að útiloka að hægt sé að rækta undan henni. Með því væri hægt að verja stofninn fyrir tilviljanakenndri útþynningu og styrkja ræktuna á reið- og keppnishestum.

Ógn við ræktun og orðspor íslenska hestsins

Á sama tíma hafa þeir sem stunda hrossarækt varið áratugum í að byggja upp vandaðar línur, greiða fyrir stóðhesta, skrá ættir og huga að andlegum og líkamlegum eiginleikum hrossanna. Ef folöld undan blóðmerum fara síðan á markað sem reiðhestar og jafnvel erlendis getur það orðið til þess að grafa undan orðspori og ræktun íslenska hestsins.

Íslenski reiðhesturinn hefur skapað sér sérstöðu og er eftirsóttur víða um heim. Ef hryssa sem ekki er hluti af vandaðri ræktun, (með genagalla) kemur með afkvæmi sem rata inn á sama markað getur það haft verulega áhrif á trúverðuleika íslenska hestsins til útflutnings.

Þetta kallar á skýrar reglur

Setja þarf skýrar reglur um meðferð og skráningu blóðmera, að afurðir þeirra falli aðeins til kjötræktunar. Að folöld blóðmera eigi aldrei að fara inn í ræktun eða séu seld sem reiðhestar. Hér er ekki aðeins verið að hugsa um rétt bænda, heldur einnig heiðarleika í garð kaupandans; að hann sé ekki að kaupa gallaða vöru sem gæti haft áhrif á gæðastaðal íslenska reið- og keppnishestsins.

Þetta er hjartans mál fyrir þá sem rækta íslenska hestinn af ástríðu, fagmennsku og virðingu. Dýravelferð og fagleg ræktun eru ekki andstæður, heldur samverkandi þættir í búskap.

Þetta er ekki deiluefni milli ólíkra búskaparforma, þetta er spurning um fagmennsku, sanngirni og ábyrgð.


Þjónar auðvaldsins

Nýleg umfjöllun Kveiks opinberaði að lögreglumenn tóku þátt í njósnastarfsemi fyrir Björgólf Thor Björgólfsson. Slík misnotkun opinbers valds í þágu fjármagns er eitthvað sem á ekki að koma þjóðinni á óvart. Þetta er ekki fyrsta skiptið og verður ekki það síðasta.

Ég hef áður skrifað um hvernig lögreglan er smátt og smátt að reyna að öðlast alræðisvald sem ekki er í takt við lýðræðislegt réttarríki. Í greinum eins og Rafrænn heimur, Óhóflegt vald lögreglu stofnar lýðræði Íslands í hættu og Gestapómenning í skjóli öryggis sem minnir óneitanlega á „þriðjaríkið.

Vald án gagnsæis er uppskrift að misnotkun

Það skiptir litlu máli hvað lögregla eða ráðherrar segja um að „rannsaka málið“. Þeir sem fara með þetta gríðarlega vald, geta ekki rannsakað sjálfa sig af heiðarleika. Sem er grundvallarregla í lýðræðisríkjum en gildir ekki hér.

Þegar ríkissaksóknari, ríkislögreglustjóri, lögregluyfirvöld, og aðrir tengdir aðilar hafa taumhald á öllum upplýsingum, þá er þetta eftirlit ekkert annað en innantóm leiksýning. Og á meðan getur sú menning sem leyfir njósnir og valdníðslu haldið áfram óáreitt.

Lögreglan þjónar fjármagninu ekki almenningi

Það sem gerir þetta mál, að máli er sú alvarlega staðreynd að um er að ræða lögreglumenn í opinberu embætti sem eru að þjóna fjárhagslegum og pólitískum hagsmunum auðmanna. Þegar lögregla þjónar ekki lengur réttlæti, heldur sérhagsmunum, þá hefur hún glatað lögmætu hlutverki sínu í lýðræðissamfélagi. Við skulum hafa það hugfast að þetta tiltekna mál er ekki eins dæmi, þau eru fleiri þar sem lögreglan gengur erinda auðmanna.

Slíkar aðgerðir hvort sem þær beinast að stjórnmálamönnum eða almenningi grafa undan trausti réttarríkisins. Þær sýna að valdið hefur verið selt auðvaldinu.

Látum ekki blekkjast

Þegar sjálfur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir að „manni sé brugðið“, þá ætti okkur öllum að bregða. Þetta mál sem upp er komið er ekki einstakt atvik, þetta er afleiðing af þeirri menningu sem þrífst innan lögreglunnar, að þeir eru yfir lög hafnir. 

Látum ekki álfarykið tálma okkur sýn.

Við sem samfélag verðum að standa vörð um lýðræðið, látum ekki möntru framkvæmdavaldsins afleiða okkur af sannleikanum að þetta sé „undantekning“. Spillingin heldur áfram, þannig rúllar kerfið.

Ekki fleiri skýrslur

Við þurfum ekki fleiri innihaldslausar yfirlýsingar um rannsóknir sem engu skila. Við þurfum raunverulegt uppgjör og gagnsæi. Við þurfum að standa vörð um lýðræðið. Það að eftirlitsaðili fari með eftirlit á sjálfum sér er ekkert annað en sjálfsréttlæting í dulargervi keisarans og mun aldrei skila neinu. Ef við ætlum að hreinsa út spillta menningu, verður það að gerast ofan frá og niður, ofan úr fílabeinsturni hrokans og niður að kassa skósveinsins.

Slíkt krefst utanaðkomandi aðkomu, við getum hvorki stólað á Evrópusambandið né vestræna bandamenn sem sjálfir glíma við djúpa spillingu í eigin kerfum. Við þurfum kannski að beina sjónum okkar í átt sem fæstir þora að nefna til austurs „Kína“. En eins og staðan er í dag liggur ábyrgðin hjá Alþingi, fjölmiðlum og okkur sjálfum.

Þeir ættu að fara sparlega með orðin, þeir lögreglu menn sem eru að hneykslast á því sem upp er komið, þar sem heiðaleiki þeirra býr í glerhúsi, „kasti fyrstur steini sem syndlaus er”.

Þegar lögreglumenn njósna fyrir auðmenn og njósna fyrirtæki er fengið til að grafa upp upplýsingar fyrir pólitíska leik fléttu, þá er ekki lengur um einstök mistök að ræða. Þetta er spegilmynd djúprar spillingar sem hefur þrifist í aldir í Íslenska valdhafa kerfinu sem engin rannsókn getur hreinsað með rannsókn á sjálfri sér.

Obbobob, skýrsla í skúffu.


Óstjórn fósturvísa í ræktun Íslenska hestsins

Í náttúrunni eignast hryssa eitt folald á ári. Þannig hefur það verið í þúsundir ára. Þar sem líffræðin hefur ráðið, er samband móður og folalds órjúfanlegt fyrir þroska þeirra beggja. En nú, í skjóli tækni og markaðshyggju, eru þessar forsendur brostnar. Tæknin gerir okkur kleift að margfalda fjölda afkvæma hverrar hryssu frá ári til árs, án þess að um hana sé til nokkurt regluverk eða heildarstefna. Það eru einfaldlega engin mörk.

Hversu mörg folöld getur ein hryssa átt?

Tæknin við fósturvísaflutninga gerir ræktendum kleift að láta eina hryssu „framleiða“ mörg folöld á ári, með því að safna eggjum og flytja frjóvgaða fósturvísa í aðrar hryssur (staðgöngumæður). Þannig er hægt að nýta arfgerð verðmætra hryssa langt umfram það sem náttúran gerði ráð fyrir.

Þetta er ekki lengur ræktun, við erum komin í fjöldaframleiðslu. Og spurningar sem brenna á vörum þeirra sem hugsa til framtíðar: Hver verndar hryssuna? Hver gætir stofnsins?

Engar reglur eða mörk

Engin íslensk lög eða reglugerðir setja takmarkanir á fjölda fósturvísa sem má taka úr hverri hryssu árlega. Engin stefna er til um hvað telst eðlilegt eða hvað telst sjálfbært út frá erfðafræðilegu og siðfræðilegu sjónarhorni. Ætlum við að leyfa markaðnum að móta framtíð íslenska hestsins, hefur sagan ekki kennt okkur að þegar fjárhagslegar freistingar ráða för, víkur velferð og heilbrigð skynsemi fyrir skammtímagróða?

Fingraför líffræðinnar

Rannsóknir á nautgriparækt í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sýnt að þegar örfá naut eru notuð í miklu mæli, lokast blóðlínur og erfðafræðilegur fjölbreytileiki dregst hratt saman. Í grein sem birtist í tímaritinu Animals árið 2001 er varað við því að ofnotkun á fáum gripum í kynbótarstarfi hafa leitt til minnkandi erfðabreytileika, aukinnar tíðni meðfæddra galla og lakari frjósemi.

Er þetta leiðin sem íslenskir hrossaræktendur vilja fara?

Það eru engar reglur og það ekkert hámark á því hversu mörg folöld hver hryssa má eignast á ári. Að taka egg úr hryssum er inngrip.

Hefur verið gerð heildstæð rannsókn á áhrifum endurtekinna inngripa, til dæmis hvort þau geti haft áhrif á frjósemi, hegðun eða jafnvel lífslíkur hryssunnar?

Stofninn sem verslunarvara

Hryssa sem hefur hlotið 1. verðlaun og gefið af sér góð afkvæmi er orðin að gróðatæki án þess að það sé hugsað út í afleiðingar. Með nútímatækni er hægt að fjöldaframleiða erfðaeiginleika hennar í skammsýni, eins og enginn sé morgundagurinn. Þegar hryssa fer að eiga tíu, tuttugu eða fimmtíu afkvæmi á ári, þá erum við að skapa sömu áhættu og með „sæðisútrásina“ frá fáum stóðhestum. Erfðafræðileg þrengsli og einangrun mun koma fram í ræktun framtíðar.

Og í öllu þessu ferli vakna spurningar: Hver gætir þjóðararfsins? Er skynsamlegt að gera íslenska hestinn að afurð sem er orðin meira eins og verksmiðjuframleiðsla? Hver er þá sérstaða íslenska hestsins?

Byrgjum brunninn

Við höfum áður farið í útrás án leikreglna. Við sáum hvernig bankakerfið hrundi þegar stjórntækin voru ekki til staðar. Nú er sama hugsun farin að gægjast inn í hrossaræktina, þar sem tæknin hefur opnað möguleika. En hverjar eru afleiðingarnar?

Æskilegt er að innleiða:

  • Reglur um hámarks fjölda fósturvísa, sem má taka úr hverri hryssu á ári.
  • Velferð, þar sem gerðar eru kröfur um aðbúnað og verndun hryssunar.
  • Siðferðisleg mörk, að erfðabreytileiki stofnsins sé verndaður.
  • Stefnu um sjálfbærni í hrossarækt, byggða á náttúrulögmálum, ekki bara markaðshyggju.

Í upphafi skyldi endinn skoða

Íslenski hesturinn hefur staðið af sér eld og ís á okkar harðgerða landi. Hann hefur mótast af náttúrunni, hann á ekki að vera verksmiðjulína útrásarmanna með skammsýna hugsun. Nú stöndum við frammi fyrir tæknibyltingu sem getur skaðað ræktun íslenska hestsins. Áður en við missum okkur í að margfalda afkvæmafjölda íslenska hestakynsins sem framleiðslulínu mamons, verðum við að svara: Hvað telst eðlilegt? Hvað telst siðlegt? Og fyrir hverja erum við að rækta?

Látum græðgi ekki teyma okkur áfram í blindni, hugsum dæmið til enda áður en óafturkræfur skaði verður á íslenskri hrossarækt.


Fangelsiskerfið er sprungið

Við verðum að fara að hætta að tala í hringi um þá alvarlegu stöðu sem er komin upp í fangelsiskerfinu. Kerfið er sprungið. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við, það er ekki lengur hægt að fela vandamálið með hálfkveðnum vísum af ótta við almenningsálit.

Fangelsismálastjóri lét hafa eftir sér í fréttum 28. apríl síðastliðinn að um 100 refsidómar hefðu fyrnst á síðasta ári, þar sem fangelsin ráða ekki lengur við það álag sem upp er komið. Við komum ekki lengur föngum inn til afplánunar, hvorki í hefðbundið fangelsi né í gæsluvarðhald. 

En á sama tíma eru einstaklingar í kerfinu sem eru hæfir til að losna fyrr, ef litið er til hegðunar og félagslegra aðstæðna þeirra.

Það verður að innleiða hvata- og matskerfi fyrir fanga og meta þá einstaklinga sem hafa nýtt fangavistina vel, sýnt ábyrgð, bætt sig og eru hæfir til að snúa aftur út í samfélagið án þess að stofna öryggi þess í hættu. Það þarf að koma á kerfi þar sem fangar geta unnið sér inn frelsi með góðri hegðun og virkni. Þeir sem standast slíkt mat eiga að fá tækifæri til að losna fyrr, en þó með ákveðnum skilyrðum. Og um leið er hægt að stoppa í það gat sem hefur myndast að dómar fyrnist vegna þess að kerfið er sprungið.

Þetta er ekki lengur spurning um siðferðisvitund eða hvernig málið lítur út á forsíðu morgunblaðsins. Spurningin er þessi: Ætla fangelsismálayfirvöld að láta kerfið hrynja eða ætla þau að bregðast við?

Við þurfum að horfast í augu við það, að nýtt fangelsi mun ekki bjarga neinu í bráð, það hefur ekki enn verið tekin fyrsta skóflustungan fyrir því. Að treysta því að einhver framtíðar mannvirki leysi vandann er blind bjartsýni, á þær staðreyndir sem við stöndum fyrir núna.

Við getum ekki haldið áfram að stinga hausnum í sandinn. Við verður að fara að framkvæma. Ekki fleiri fundir, ekki fleiri skýrslur, ekki fleiri yfirborðskenndar yfirlýsingar um að eitthvað verði „skoðað“. Það þarf að taka ákvarðanir, sem eru byggðar á raunverulegu mati á áhættu og getu einstaklinga á endurkomu í samfélagið.

Þessi orð hljóma reglulega „vegna almannahagsmuna“, „til að tryggja öryggi almennings“, „til að særa ekki blygðunarkennd almennings“.

Það er algjört getuleysi að sitja aðgerðarlaus á meðan dómar fyrnast. Það er stjórnleysi. Og stjórnleysi í refsikerfinu þýðir að traust almennings á réttarríkinu minnkar.

Það má alltaf gera betur. Hvernig væri að stoppa í gatið?


Fangelsismál í skugga minnimáttarkenndar

Nýjar áætlanir um byggingu 100 manna fangelsis á Stóra-Hrauni, sem á að leysa af hólmi elsta og stærsta fangelsi landsins Litla-Hraun, virðast ætla að verða enn eitt dæmið um hálfkák og skammtíma hugsun í íslenska fangelsiskerfinu. Nýja fangelsið á að rúma 100 fanga, með möguleika á að bæta við 28 rýmum. En þegar litið er til hve langur biðlisti eftir afplánun er vaknar stóra spurningin: Er þetta virkilega lausnin? Hvers vegna eru ákvarðanir um framtíð fangelsismála teknar með skammtíma sjónarmiðum, í stað þess að hugsa bæði stærra og lengra fram í tímann? 

Er lausnin að steypa veggi fyrir tugi milljarða, svo enginn sjái hversu djúpt fangelsiskerfið er sokkið?

Hvernig á að réttlæta það að með nýju fangelsi sé aðeins verið að bæta við 20 plássum? Hvernig á það að bjarga kerfi sem er nú þegar sprungið innan frá? Hvað með að horfa til kjarna málsins? Það er augljóslega ekki nóg að bæta við nokkrum fangelsis rýmum. Það vantar skýra framtíðarsýn, það vantar stefnu, það vantar hugrekki til að horfast í augu við þá staðreynd að íslenska fangelsiskerfið hefur dregist aftur úr, bæði hvað varðar aðstöðu og hugmyndafræði.

Meira en bara veggir og rimlar

Í fréttum Stöðvar 2 þann 21. apríl síðastliðinn lagði forsætisráðherra áherslu á að framkvæmdir við nýtt fangelsi á Stóra-Hrauni á Eyrarbakka hefjist sem fyrst. Hún benti á að byggingar á Litla-Hrauni væru orðnar mjög lélegar og yrðu meira og minna jafnaðar við jörðu með tilkomu nýs fangelsis. Að með nýju fangelsi myndi aðstaða fangavarða batna verulega og störfum fjölga um allt að 30.

Þetta hljómar vissulega vel á yfirborðinu. En erum við virkilega að byggja nýtt fangelsi fyrir 20 aukapláss og sem atvinnuátak fyrir nærumhverfið? Ef raunverulegur vilji væri fyrir hendi til að bæta kerfið, væri verið að horfa til framtíðar, og horft til 200 manna fangelsi með fjölbreyttum úrræðum. Þar sem þörfum fanga væri mætt, ekki bara með læstum hurðum heldur raunverulegri endurhæfingu. Fangar eru fjölbreyttur hópur, ekki einsleitur, fangelsi eiga ekki að vera lokaður klefi þau eiga að vera vettvangur uppbyggingar.

Fangelsi á ekki að vera geymsla. Það á að vera staður betrunar að bata. Þar sem hver einstaklingur fær raunverulegt tækifæri til að bæta sig. Þar sem menn eru metnir sem einstaklingar og þeim mætt þar sem þeir eru, ekki með stöðluðum viðurlögum heldur með markvissri endurhæfingu, menntun, ráðgjöf og stuðningi.

Opin úrræði eru sprungin og vanrækt

Það er löngu orðið ljóst að opin afplánunar úrræði duga ekki lengur til. Þau eru alltof fá og löngu sprungin. Biðlisti eftir að komast í mannlega afplánun lengist með hverju árinu og áhugi yfirvalda á að fjölga þessum úrræðum virðist lítill sem enginn. Það er talað um að „endurnýja“ fangelsiskerfið, en ef sú endurnýjun felst eingöngu í nýrri byggingu, með sömu gömlu hugsuninni, þá er þessi gjörningur ekkert annað en lélegt leikrit.

Á sama tíma og talað er um að reisa nýtt fangelsi fyrir hundrað manns, sjáum við engin merki um nýja hugsun varðandi afplánun. Fangelsi eiga ekki bara að vernda samfélagið gegn afbrotamönnum. Þau eiga að hjálpa einstaklingum að snúa af braut afbrota. Það gerist ekki í ryðguðu og fúnu kerfi, heldur í mannlegu umhverfi þar sem markmiðið er að byggja upp, ekki brjóta niður.

Það má velta því upp hvort ekki sé orðið tímabært að beita nútímalegri úrræðum á borð við rafrænt eftirlit „ökklabönd“ í mun ríkari mæli til að létta á þeim flöskuhálsi sem skapast hefur vegna skorts á fangelsisplássum. Fjöldi dóma fyrnast einfaldlega vegna úrræðaleysis, rafrænt úrræði er raunhæfur og ábyrgur valkostur, án þess að skerða öryggi samfélagsins.

Kerfið hefur molnað innan frá

Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að íslenska fangelsiskerfið hefur verið látið drabbast niður. Kerfið hefur molnað innan frá vegna metnaðarleysis, fjársveltis og skorts á pólitískum vilja til að taka á málunum af alvöru. Umhyggja og endurhæfing virðast vera hugtök sem eiga fáa málsvara innan stjórnkerfisins þegar kemur að föngum, sem er óásættanlegt.

Fangelsi á ekki að vera aðeins vettvangur refsingar, heldur vettvangur tækifæra. Við verðum að spyrja: Hvað getum við gert fyrir þessa einstaklinga? Er verið að bjóða þeim leið út úr vítahringnum eða er verið að dæma þá til áframhaldandi niðurbrots og félagslegrar útilokunar?

Það er kominn tími til að gera betur

Við getum ekki lengur hugsað um fangelsi sem lokaðan heim þar sem fólk er geymt þar til það rennur út á tíma eða deyr. Fangelsi á að vera vettvangur umbreytinga. Þar sem mál hvers einstaklings er skoðað sérstaklega. Þar sem menntun, meðferð, ráðgjöf og stuðningur eru hluti af daglegu lífi, og markmiðið er að losa einstaklinga út úr kerfinu, ekki festa þá í því.

Við þurfum nýja stefnu. Stefnu sem byggir ekki á minnimáttarkennd eða fjársvelti, heldur á virðingu, fagmennsku og raunverulegum vilja til breytinga. Það er ekki nóg að reisa veggi, við þurfum raunhæfa framtíðarsýn.

Það þarf að gerast núna.


Gestapómenning í skjóli öryggis

Það ríkir undarleg kyrrð í samfélaginu gagnvart þróun sem ætti að vekja upp háværar viðvörunarbjöllur. Lögregluyfirvöld og þá sérstaklega ríkislögreglustjóri virðast nú á ferðinni með að festa í sessi vald sem skerðir borgaralegt frelsi og dregur úr gagnsæi, án ábyrgðar.

Nýlega var Finnbogi Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra, á Bylgjunni. Þar fór hann með hræðsluáróð í anda “vók” að reyna að hafa áhrif á Hæstarétt í hinu svokallaða hryðjuverkamáli fyrir hönd embættisins, þrátt fyrir að það hafi verið tekið fyrir á tveimur dómstigum og vísað frá. Það virðist eiga að beita dómstól lýðræðisins þrýstingi einmitt af þeim sem ættu að halda sig við lög og reglur, en ekki smíða sinn eigin veruleika. Til dæmis, má nefna þegar faðir ríkislögreglustjóra sætti ekki ákæru í hryðjuverkamálinu, að því er best verður séð vegna vensla hans við ríkislögreglustjóra. 

Rannsóknaraðferðir sem flokkast sem „óhefðbundnar“ virðast notaðar í síauknum mæli til að réttlæta valdbeitingu, sem annars hefði verið talin ólögmæt. Sérstaklega má nefna forvirkar rannsóknarheimildir sem embættið virðist telja sig geta beitt án skýrrar lagastoðar, og vilja en frekari heimildir til vöktunar. Þar sem yfirvöld geta fylgst með „Pétri eða Páli“, og þeim sem koma að stjórnmálum eða gagnrýna stjórnvöld. Þetta er ekki lengur spurning um öryggi, þetta er farið að snúast um hverjir mega hugsa, tala og mótmæla.

Í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem kom út í apríl 2025, kemur fram að helsta hryðjuverkaógnin á Íslandi stafi nú af einstaklingum og litlum hópum sem sækja innblástur í ofbeldisfulla hægri öfgahyggju. Aldrei áður hafa öfgahópar og hryðjuverkasamtök átt jafn greiðan aðgang að einstaklingum um allan heim, samsæriskenningum er dreift á dulkóðuðum stafrænum vettvangi. Greiningardeildin bendir á að áhrif slíkra hópa muni aukast á komandi árum, sérstaklega meðal ungs fólks. Það sem áður var hliðarsena internetsins er nú orðinn meginstraumur í upplýsinga- og áróðursstríði.

Íslensk yfirvöld sem erlend beina líka sjónum að annarri sviðsmynd sem er hálf kjánaleg í stóru samhengi, til dæmis að mótorhjólagengi séu ein af stóru ógnum samfélagsins. Þetta er frekar kaldhæðnislegt þar sem starfsmenn ríkisins eru sjálfir með einn mótorhjóla club, en þessi klúbbur virðist vera undanþeginn frá þeirri stimplun að vera „gengi“. Þessi svokallaða ógn, eru miðaldra karlmenn og konur sem hafa sama áhugamálið, að njóta þess frelsis að þeysa um á stál fáknum.

Á sama tíma eru dregnar upp sviðsmyndir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, „leikmynd“ sem ætlað er að réttlæta lagasetningu, víðtækara eftirlit og rýmri rannsóknarheimildir. Líkt og bent var á í skýrslu ríkislögreglustjóra frá 2015, voru það einkum aðkomnir vígamenn sem tengdust Ríki íslams sem taldir voru ógn, en í nýjustu skýrslu er áherslan orðin önnur: nú er það hægri öfgahyggja innanlands sem skapar mesta ógn, samkvæmt greiningu greiningardeild lögreglu og íslenskra stjórnvalda.

Þetta leiðir hugan að stærri spurningu: Hvernig ætla lögregluyfirvöld að nota þessar upplýsingar? Er verið að efla öryggi samfélagsins, eða er verið að festa í sessi rýmri heimildir til vöktunar, handahófskenndrar skráningar og pólitískrar stimplunar?

Ofan á þetta bætist sú alvarlega ásökun að innan embættisins sjálfs ríki spillingar menning og óheiðarleiki. Fjöldi mála, hvort sem um er að ræða hvarf haldlagðra muna, ásakanir um ofbeldi eða misnotkun valds, virðist fá að líðast án þess að neinn beri ábyrgð. Ef almenningur hegðaði sér með sama hætti, væri hann setur á bak við lás og slá.

Ef samfélagið ætlar að vernda lýðræðið, þarf að krefjast gagnsæis, ábyrgðar og virðingu fyrir grundvallarréttindum borgaranna. Við megum ekki missa okkur í nafni öryggis, þegar eftirlit og ofbeldi fær að blómstra í skjóli laga, „söngkórsins“ án þeirra erum við hætt komin. Veraldarhyggja og forræðisandi innan þeirra stofnana sem eiga að standa vörð um réttarríkið lyktar sífellt meir af ofbeldinu sem við þekkjum úr sögunni „þriðjaríkið“. Þar sem yfirvaldið var hafið yfir borgarann!

Við sem þjóð verðum að spyrja: Hvað gerist þegar Lögregluyfirvöld verða að öryggisógn? Hver verndar þá frelsi borgaranna?


Útrás sæðis setur hrossarækt í óvissu

Á síðustu misserum hefur umræðan um útflutning á sæði íslenska hestsins farið fram án vitrænnar umræðu. Vaxandi eftirspurn og möguleikinn að selja sæði íslenska hestsins út landi virðist hafa opnað nýja gátt í íslenskri hrossarækt. En á sama tíma og blásið er í lúðra fyrir nýrri útrás, velta fáir því fyrir sér hver eru raunveruleg áhrif þessa útflutnings.

Engin heildræn stefna

Það vekur ugg að engin heildræn stefna virðist vera til þegar kemur að útflutningi sæðis úr íslenskum stóðhestum. Það eru engin heildræn stefna þegar kemur að því hversu marga skammta af sæði má taka úr hverjum hesti, enginn kvóti, engin miðlun. Í raun getur hestur átt þúsundir afkvæma víða um heim, án þess að nokkur stofnun grípi inn í eða geri mat á langtímaáhrifum þess. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að við eigum að umgangast erfðaeiginleika hestakynsins okkar eins og hverja aðra auðlind. Óheft aðgengi getur haft gríðarleg áhrif á framtíð ræktunar og arðsemi greinarinnar.

Einhæfni og tikkandi tímasprengja

Ein af helstu hættunum við óhefta notkun og útflutning á sæði er erfðafræðileg einhæfni. Þegar toppstóðhestar eru notaðir í of miklum mæli, bæði innanlands og nú með útflutningi, skapast hætta á ofnotkun sama genamengis. Ef mörg hundruð eða jafnvel þúsundir afkvæma koma undan sama hesti í mismunandi löndum, eykur það líkurnar á innrækt og veikleika í næstu kynslóðum sem gætu á endanum komið aftur heim í íslenska stofninn. Þessi þróun er ekki bara kenning. Hún hefur þegar sýnt sig víða annars staðar í heiminum, til dæmis nautgriparækt í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þjóðararfur í einkaeigu

Stóðhestur er ekki bara gripur í ræktun, hann ber með sér íslenska arfgerð, sögu og menningu sem hefur þróast í einangrun í meira en þúsund ár. Þegar sæði þessara hesta er selt án skýrra laga og reglna, færist þessi þjóðararfur í raun í einkaeign. Í stað þess að íslensk hrossarækt standi vörð um gæði og fjölbreytileika stofnsins, verður kynbótauppspretta íslenska hestsins að alþjóðlegri verslunarvöru. Þetta vekur upp siðferðilega spurning: Ætla Íslendingar að missa sérstöðu sína og frumkvæði við ræktun íslenska hestsins?

Það sem enginn vill ræða

Að sæða hryssu getur kostað allt frá 80.000 upp í 150.000 krónur. Og þá á tollurinn eftir að bætast við, sem getur numið allt að 350.000 krónum. Þarna erum við að tala um kostnað upp á hálfa milljón, fyrir eitt folald. Þetta endurspeglar þá ógeðfelldu og skynlausu græðgi sem hefur náð að hreiðra um sig. Að sæðing sé orðin gróðatæki kynbótaiðnaðarins, ekki lengur hugsjón sem ræktunarstarf. Þessa viðskiptahættir er að kæfa það hugsjónastarf, sem ræktun stendur fyrir.

En fjármálin eru ekki það eina sem stenst ekki skoðun. Það eru engar reglur sem tryggja að hryssan fái meðferð sem samræmist velferð dýrsins. Hryssa sem fer í sæðingu þarf góða beit, ró og öryggi í umhverfi sínu. Það er ábyrgðarhluti að grípa inn í líkamsstarfsemi dýra og það ber að sýna þeim virðingu. Í mörgum tilfellum eru hryssur einungis settar í hólf, þar sem velferð þeirra er aukaatriði. Að það séu ekki gerðar sömu kröfu á Íslandi og erlendis segir meira en mörg orð.

Hver gætir stofnsins?

Í öðrum búgreinum er eftirlit með erfðaeiginleikum mun strangara. Nautgripa- og sauðfjárrækt hefur þróað með sér kerfi sem miða að því að forðast ofnotkun einstakra gripar og tryggja breidd í genamenginu. Hvers vegna gildir annað um hestinn? Af hverju eru ekki settar reglur um hámarksmagn sæðis sem má taka úr hverjum stóðhesti? Af hverju má ekki setja kvóta á útflutning, til að tryggja jafnvægi og vernd stofnsins til framtíðar?

Villtavestrið í nýrri mynd

Íslendingar eiga sögu af útrás sem ekki var byggð á heildstæðri hugsun, eins og fjármálaútrásin fyrir hrun er skýr áminning um, og sýnir hvað gerist þegar stefna og skynsemi víkja fyrir skammtímagróða. Er það þangað sem við viljum fara með íslenska hestinn? Ef við förum að flytja út sæði án þess að móta ramma í kringum notkun og eftirlit, erum við að endurtaka sömu mistök. Hættan er sú, ef við opnun dyr villta vestursins þar sem gæði og sérstaða íslenska hestsins glatast smám saman í samkeppni við stórbú erlendra auðmanna.

Tímabært að setja leikreglur

Það þarf að spyrna við fótum og skilgreina hvernig við viljum standa að útflutningi sæðis.

Það þarf:

  • Lögbundinn kvóta á fjölda sæðisskammta sem má flytja út undan hverjum hesti á ári.
  • Eftirlit með útflutningi, í höndum til dæmis MAST eða fagráðs hrossaræktar.
  • Langtímaáætlun um vernd íslenska hrossastofnsins með áherslu á erfðabreytileikann.
  • Samráð við ræktendur og sérfræðinga í erfðafræði til að tryggja að við töpum ekki verðmætum framtíðar fyrir skammtímagróða.

Við eigum einstakan hrossastofn, sem hefur þolað eld og ís í gegnum aldirnar. Nú stendur hann frammi fyrir nýrri áskorun, ekki í formi náttúruhamfara heldur af mannavöldum. Ef við bregðumst ekki við núna, gæti einn verðmætasti þjóðararfur okkar orðið fórnarlamb græðginnar, þar sem skammsýn hugsun ræður ríkjum. Það verður að setja leikreglur áður en lengra er haldið, og áður en það verður of seint.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband