Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Vernd hefur verið hluti af íslensku samfélagi í meira en 60 ár. Í upphafi var áfangaheimilið hugsað sem leið fyrir fyrrverandi fanga til að aðlagast samfélaginu á ný, en í dag er spurningin hvort Vernd sé ekki orðin meira lík einkareknu fangelsi? Hlutverk Verndar hefur þróast á þann hátt að fangar sem vilja nýta sér rafrænt eftirlit þurfa að vera vistaðir þar og greiða leigu fyrir vistina. Hvernig stendur á því að Fangelsismálastofnun getur gert þá kröfu að fangi borgi fyrir afplánun sína á Vernd og það sé eini kosturinn til að fangi komist á rafrænt eftirlit?

Félagasamtökin Vernd hófu formlega starfsemi 1. febrúar 1960 að undirlagi Þóru Einarsdóttir. Markmiðið var að styðja einstaklinga sem hafa lokið afplánun fangelsisdóms. Lög samtakanna voru mótuð eftir norrænni fyrirmynd og kveða á um að Vernd skuli aðstoða fyrrum fanga við að yfirstíga byrjunarörðugleika við þáttöku í lífinu að nýju, meðal annars með því að útvega þeim húsnæði, vinnu og sálfræðilega aðstoð. Markmiðið var að efla samhygð og skilning í samfélaginu á högum fanga og fjölskyldna þeirra, sem og að aðstoða þá við að endurheimta traust og aðlögun að samfélaginu.

Áfangaheimili Verndar opnaði fyrst á Stýrimannastíg 9 í Reykjavík og veitti þeim húsaskjól sem áttu um sárt að binda, bæði fyrrverandi föngum og þeim sem bjuggu við bág kjör. Reykjavíkurborg greiddi húsaleiguna og velvildarfólk gaf Vernd innbú með það að markmiði að styðja samtökin. Í dag er Vernd staðsett á Laugateigi 19 í Reykjavík. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun Verndar.

Ólíkar aðstæður fanga

Fangar fá því miður ekki málefnalega meðferð þar sem tekið er tillit til aðstæðna hvers og eins. Það er gríðarleg mismunun á milli fanga þegar kemur að búsetu þeirra á Vernd. Fangar sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu hafa betri möguleika á að viðhalda tengslum við fjölskyldu og samfélag sitt. Fangar sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins eru svo gott sem sviptir þeim möguleika að umgangast sína nánustu á meðan þeir dvelja á Vernd. Þetta er klár mismunun.

Til að útskýra þetta betur, skulum við skoða þrjú mismunandi dæmi:

  • Fangi A: er í takmörkuðu sambandi við fjölskyldu sína eða engu. Hann á í engin hús að venda og á erfitt með að fóta sig í lífinu, hann vantar vinnu og húsnæði til búsetu. Vernd hentar honum fullkomlega til að koma undir sig fótunum.
  • Fangi B: er búsettur fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Eina leiðin fyrir hann til að vera í sambandi við fjölskyldu sína er í gegnum síma eða tölvu. Hann getur ekki tekið þátt í daglegu lífi fjölskyldu sinnar, eða tengst því samfélagi sem hann ætlar að snúa aftur Hann er í alveg sömu stöðu og þegar hann var í fangelsi þegar kemur að samverustund með fjölskyldu sinni og því samfélagi sem hann ætlar að búa í.
  • Fangi C: er búsettur á höfuðborgarsvæðinu, Hann er í góðum tengslum við fjölskyldu sína, hann getur tekið takmarkaðan þátt í daglegu lífi þeirra, hann á auðvelt með að halda tengslum við sitt samfélag. Þessi fangi á fjölskyldu og rekur heimili með öllu tilheyrandi, hann á í fullu fangi með að greiða niður sakarkostnað og þær skuldir er hafa hlaðist upp á meðan á afplánun hefur staðið. Vernd hamlar dagleg tengsl hans í lífi fjölskyldunnar og þá sérstaklega einni mikilvægustu stund dagsins, „úlfatímanum“.

Íþyngjandi leigukostnaður fyrir fanga

Til að komast á rafrænt eftirlit verður fangi fyrst að klára skyldubundna dvöl á Vernd, sama hvaðan af landinu hann kemur. Sú vist kostar 100.000 kr. á mánuði og eru flest herbergin þar tveggja manna. Fyrir þá sem eiga fjölskyldu, reka heimili og eru jafnvel að greiða niður uppsafnaðan sakarkostnað er þetta mjög þungbær fjárhagslega byrði. Þetta er klárlega ekki réttlát meðferð á skjólstæðingum og sýnir hversu langt Vernd hefur fjarlægst upphaflegan tilgang sinn.

Það er mikilvægt að spyrja sig, hvers vegna þarf fangi sem er að ljúka afplánun að greiða fyrir vistun sína? Að fangar þurfi að fjármagna afplánun sína virðist vera ákveðin tegund þrælahalds. Fangar líta á Vernd sem opið fangelsi, ekki áfangaheimili eins og Vernd vill telja sig vera, þar sem þeir eru ekki aðeins sviptir frelsi heldur einnig skyldaðir til að taka þátt í sjálfboðavinnu til að mæta kröfum um virkni hafi þeim ekki tekist að útvega sér vinnu á meðan á dvöl þeirra stendur. Þeir eru skyldaðir til að greiða fulla leigu þrátt fyrir að hafa engar tekjur af sjálfboðastarfi sínu.

Tæknin gerir Vernd úrelt úrræði

Í ljósi þeirrar tækni sem er til staðar í dag, til dæmis GPS-tæknin, eða önnur snjalltæki, má velta því fyrir sér hvort núverandi kerfi Verndar sé úrelt. Það að fangi sem á heimili á Akureyri, Egilsstöðum eða annars staðar á landsbyggðinni, þurfi að vera vistaður í Reykjavík á Vernd til að vera gjaldgengur á rafrænt eftirlit, skapar hindranir fyrir þá sem vilja halda tengslum við fjölskyldu sína og samfélag. Þetta er hrein og klár mismunun, þar sem búseta ræður miklu um hvernig fangar geta tengst aftur nærumhverfi sínu.

Dagskrá Verndar er vandamál fyrir þá sem eru með fjölskyldu

Fangar á Vernd mega vera úti frá klukkan 07:00 til 23:00 alla virka daga, um helgar mega þeir vera úti frá klukkan 07:00-22:00. Hins vegar þurfa þeir að vera inni á Vernd á virkum dögum milli kl. 18 og 19 en þess þarf ekki um helgar. Þeir missa því af kvöldverðinum, sem er mikilvægasti samverutími fjölskyldunnar. Einnig eru börn oftast að klára tómstundaæfingar um þetta leyti. Þessari reglu þarf að breyta ef ætlunin er að styrkja fjölskyldutengsl og aðlögun fanga að samfélaginu.

Áföll og fíknivandi

Stór hluti fanga á við fíknivanda að stríða og hefur upplifað alvarleg áföll á lífsleiðinni. Á meðan fangavist stendur fá þeir mjög takmarkaða aðstoð til að vinna úr þeim áföllum og persónuleikaröskunum sem þeir burðast með. Það er samfélagsleg ábyrgð að veita þeim viðeigandi aðstoð, t.d. aðgang að þerapista eða sálfræðingi og að hún sé niðurgreidd af ríkinu. Það gæti hjálpað þeim að byggja sig upp, bæði andlega og félagslega, og um leið skapast betra samband þeirra við samfélagið þegar afplánun lýkur.

Fjármál Verndar og gagnsæi

Það er nauðsynlegt að ræða fjármál Verndar. Vernd fær fjárframlög frá Fangelsismálastofnun fyrir hvern fanga, auk þess sem fangar greiða fyrir dvöl sína þar. Opinberar skýrslur um rekstur Verndar eru af skornum skammti sem vekja spurningar um gagnsæi í rekstrinum. Hægt er að skoða ársreikninga hjá flest öllum opinberum fyrirtækjum og þar með talið Fangelsismálastofnun, hins vegar er hvergi hægt að finna ársreikning Verndar, þar sem Vernd felur sig á bak við það að vera góðgerðarfélag sem lýtur ekki sömu reglum og einkahlutafélög.

Er Vernd opið fangelsi eða áfangaheimili?

Að lokum er nauðsynlegt að spyrja: Er Vernd áfangaheimili eða opið fangelsi? Það er taktlaust að vista fanga úr öllum landshlutum á einu svæði þegar tæknin getur boðið upp á annað, með einfaldari úrræðum sem taka mið af einstaklingnum. Til þess þarf að endurskoða reglur Verndar.

Þegar ég skoða málið heildstætt get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en að Vernd sé einkarekið fangelsi undir regnhlíf félagasamtaka.

Fangar eru ekki bara tölur á blaði! Þeir eru manneskjur með mismunandi þarfir.

Það er kominn tími til að við sem samfélag kveðjum gamla tímann og hugsum kerfið upp á nýtt. Að refsivistarstofnarnir endurskoði og nútímavæði reglur sínar og úrræði, og finni lausnir sem henta frelsissviptum einstaklingum í nútíma samfélagi.

 

Ólafur Ágúst Hraundal


Kosningum lokið og hvað nú?

Nú er kosningum lokið og niðurstöður nokkuð ljósar, eftir stutta og skarpa kosningabaráttu, þar sem Vinstrið gall afhroð. Tveir flokkar þurrkuðust út og þurfa því að pakka saman hugmyndum sínum og setja í rykfallnar geymslur. Má því segja að hægrið hafi unnið stór sigur. En því miður virðist miðjan hafa komið sér þétt að borðinu, sú miðja, sem nú heldur um stjórnartaumana, virðist þó ætla að reyna að miðla málum með leiðum sem sennilega leiða til aukinna skatta, álaga og loftkenndra loforða. En hversu lengi er hægt að vegasalt og halda jafnvægi?

Gullhúsið sem logar

Einn af draumum tveggja flokkana af þeim þrem sem virðast líklegastir til að mynda næstkomandi ríkisstjórn, er innganga í ESB, hún sé töfralausnin á okkar vandamálum. Þessi hugmynd hljómar í huga þeirra eins og hún sé töfralyf sem muni losa Íslenskt samfélag úr fjötrum verðbólgu og vaxtaóreiðu. En hversu raunhæfur er þessi draumur? Hvað hagnast eða tapar Íslenskt samfélag með inngöngu í sambandið?

Innganga í ESB væri sjálfsmorð á sjálfstæði Íslendinga, Ísland væri eins og lamb í kjafti úlfsins. Íslenska þjóðin hefur byggt upp sitt efnahagslíf með því að nýta auðlindir landsins. Með því að færa valdið til Brussel erum við í raun að afsala okkur sjálfstæðinu, fyrir þeim er Ísland litla gullgæsin. Þar sem við hefðum ekki lengur stjórn á eigin auðlindum, hvort sem það snýr að sjávarútvegi, landbúnaði eða raforku. Þeir sem tala fyrir ESB-aðild vilja ekki ræða hvað er í öllum pakkanum hvernig slík aðild muni þrengja að okkur undir stjórn ESB sem hefur gott sem enga innsýn í þarfir smáríkis eins og Íslands.

Dýrkeypt hindrun

Sú mýta er fyrir löngu orðin úrelt að sjálfstæði Íslendinga haldist í hönd við Íslensku krónuna. Við verðum að sætta okkur við það að Íslenska krónan er æxli sem þarf að fjarlægja, hagkerfið okkar er einfaldlega of lítið til að ráða við að halda úti sér Íslenskum gjaldmiðli. Íslenska krónan er handónýt og svo er hún einnig verðlaus á erlendri grundu.

Íslenska krónan kostar Íslenska þjóðarbúið miklar fjárhæðir árlega. Áætlaður vaxtamunur milli krónu og evru er 3%, sem veldur auknum vaxtakostnaði upp á um 200 milljarða á ári. Þetta jafngildir byggingarkostnaði nýs Landspítala. Einnig stuðlar krónan að hærri verðbólgu, minni kaupmætti og auknum lánakostnaði. Seðlabankinn hefur að auki þurft að verja gengi krónunnar með gjaldeyrisforða, sem kostar yfir 20 milljarða árlega, ef miðað er við meðalverðbólgu upp á 4% á ári. Þegar þetta er allt saman tekið er heildarkostnaður Íslensku krónunnar yfir 600 milljónir á dag.

Það sem þarf er að taka skref í átt að stöðugleika í efnahagskerfinu, ekki með því að afsala okkur sjálfstæði heldur með því að festa Íslensku krónuna við stöðugan gjaldmiðil eins og evru eða dollar. Þannig mætti draga úr þeirri óstjórn sem hefur einkennt Íslenskan efnahag áratugum saman. Þessi óstöðugleiki hefur verið leikvöllur fjármálaelítunnar, sem hefur notfært sér sveiflur krónunnar til eigin ávinnings, á kostnað almennings og heimila landsins.

Með stöðugum gjaldmiðli yrði torveldara fyrir þessa elítu að hagnast á sveiflum krónunnar. Heimili landsins myndu þá loksins fá vernd gegn óeðlilegum vaxta- og verðbólguskotum, þetta gæti verið fyrsta skrefið í átt að því að leggja grunninn að nýju hag- og lánakerfi. Þetta myndi skapa umhverfi þar sem fólk gæti áætlað fjárhag sinn til lengri tíma, án þess að þurfa stöðugt að horfa á uppsprengdar afborganir vegna verðtryggingar eða óvæntra vaxtahækkana.

Fjötrar fortíðarinnar

Við getum ekki rætt stöðugleika án þess að nefna Íslensku verðtrygginguna sem er sér Íslenskt fyrirbæri. Hvernig má það vera að eitt af grunnkerfum lánamarkaðsins, „verðtrygging“ sé aðeins að finna á Íslandi?

Verðtryggingin hefur lengi verið réttlætt til að vega niður verðbólgubálið, en raunveruleikinn er sá að hún heldur heimilum í vítahring skulda. Þetta fyrirbæri finnst hvergi á Norðurlöndum, og ef djúpt er kafað þá er skrítið hún sé ekki ólögleg, ef út í það er farið. Það að lántakandi viti ekki hvað hann eigi að greiða eftir ár, það myndi engin Norðurlandaþjóð sætta sig við þess lags viðskiptahætti, en hér á landi hefur þetta þrælahald verið réttlætt með efnahagslegum rökum sem standast ekki lengur tímans tönn. Þetta kerfi sem stjórnmálamenn hafa varið í áratugi er óskiljanlegt í ljósi þess að við viljum bera okkur saman við hin Norðurlöndin.

Ef ný ríkisstjórn ætlar að gera eitthvað raunverulegt fyrir þjóðina, þá verður hún að leggja fram áætlun um að losa okkur undan þessum fjötrum. Það er engin afsökun fyrir því að halda áfram á þessari braut þegar aðrar lausnir eru fyrir hendi.

Hvert stefnir Ísland?

Nú þegar kosningarnar eru að baki og ný stjórn tekur við taumunum, stendur Ísland frammi fyrir mikilvægum spurningum um framtíð sína. Mun nýja ríkisstjórnin hafa hugrekki til að takast á við þessi rótgrónu vandamál? Eða mun hún sökkva sér í miðjumoð þar sem reynt er að gera öllum til hæfis, á kostnað raunverulegra lausna?

Það er löngu orðið tímabært að leggja af dýrtíð óstöðugleikans sem fylgir krónunni, og hefur haldið Íslenskum skattgreiðendum í gíslingu í áratugi. Lausnin liggur ekki í því að ganga í Evrópusambandið og færa valdið til annarra. Hún liggur í því að taka stjórnina í eigin hendur.

Við þurfum að hafa pólitíska forystu sem er tilbúin að kveðja gamla tímann, og horfa fram á veginn, axla ábyrgð og koma með lausnir sem þjóna þjóðinni í heild sinni, ekki aðeins fjármálakerfinu eða stjórnmálamönnum sjálfum. Ef ekki, þá mun sagan endurtaka sig og Íslenska þjóðin mun sitja uppi með krónu sem dansar í takt við ofbeldisfullan töfrasprota spillts auðvaldsins.

Það er kominn tími til að stöðva leikvang krónunnar og byggja upp traust í Íslensku efnahagslífi. Spurningin er, mun ný ríkisstjórn taka þessa áskorun alvarlega, eða verða næstu fjögur ár aðeins framhald á sama sýkta leikritinu?

Aðeins tíminn - mun leiða það í ljós.

 

Ólafur Ágúst Hraundal


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband