Fjármögnun lögreglu versus stríðsrekstur

Í nútíma samfélagi þar sem réttarríkið og mannréttindi eru hornsteinar lýðræðisins, er óumdeilanlegt að tryggja að  menn sem eru grunaðir um refsiverðan verknað fái sanngjarna málsmeðferð innan hæfilegs tíma. Samt sem áður vekja langvarandi rannsóknir og fjársvelti til löggæslu upp miklar spurningar, ekki síst þegar þjóðin sjálf er að standa í stríðsrekstri sem krefst tugi milljarða króna.

Er ekki kominn tími á að við sem samfélag byrjum að taka til heima hjá okkur og hættum þessari minnimáttarkennd?

Endurskoðun á sakamálarannsóknum

Í grein eftir Hildur Sverrisdóttir er lagt til að settur verði hámarkstími á sakamálarannsóknir, sönnunarbyrði færð yfir á lögreglu og tryggðar bætur fyrir óhóflega langar rannsóknir. Eftir að ár hefur liðið frá upphafi rannsóknar, þarf lögregla að fá dómstólaheimild til að halda áfram. Slíkar breytingar eru grundvallaratriði til að koma í veg fyrir óréttláta meðferð og draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem langvarandi rannsóknir hafa á menn með réttarstöðu sakbornings, þar sem þeim er haldið í gíslingu.

Fjárhagsleg þversöng

Við stöndum frammi fyrir mótsögninni þar sem ríkið fjársveltir löggæslu en ver tugum milljarða í stríðsrekstur. Það að taka þátt í fjárhagslegum stuðning við hernaðaraðgerðir á meðan löggæslan er fjársvelt, er eins galið og hægt er. Er ekki kominn tími á að við sem þjóð endurskoðum forgangsröðunina og leggjum aukið fé í að tryggja innviði samfélagsins og réttindi borgara.

Áhrif og afleiðingar

Langvarandi og ómarkvissar rannsóknir ásamt fjársvelti til löggæslu er ekki aðeins óréttlátt gagnvart einstaklingum sem lifa í óvissu, heldur dregur það úr trausti á stjórnvöld og réttarkerfið í heild sinni. Við verðum að spyrja okkur hvort fjárfestingar í stríðsrekstri séu réttlætanlegar miðað við þær grundvallarþarfir sem við vanrækjum innanlands.

Niðurstaða

Íslenska samfélagið stendur frammi fyrir áskorun að endurmeta hvernig fjármunum er forgangsraðað. Með því að setja skýrari ramma um rannsóknir sakamála hjá lögreglu getum við byggt upp samfélag sem virðir mannréttindi og býður upp á réttlæti og öryggi fyrir alla. Það er kominn tími til að við sem samfélag stöndum saman í baráttunni fyrir réttlæti. Við verðum að hætta að flagga fánanum á endalausum stríðsrekstri og forgangsraða fjármunum í þágu þjóðar.


Aðgangur fanga að tölvum er lykill að menntun og betri framtíð

Ég tek heilshugar undir með formanni Afstöðu og vil leggja áherslu á mikilvægi þess að fangar hafi greiðan aðgang að netinu, þegar horft er til menntunar í þessu samhengi, þá er sérstaklega brýnt að huga að þeim áskorunum sem fangar standa frammi fyrir þegar kemur að námi og tryggja þeim sömu tækifæri til menntunar eins og öðrum í samfélaginu.

Það virðist alveg hafa gleymst hjá þeim sem fara með fangelsismál að nútíma nám er ógjörningur án tölvu. Í dag fer nær allt nám fram í gegnum tölvur; þær eru bækurnar, skólataskan og skjalageymslan. Tölva er ómissandi þegar kemur að menntun, það eru lágmarks mannréttindi að fangar hafi jafnan aðgang til náms og aðrir.

Áhrif tölvunotkunar á nám fanga

Samkvæmt vitneskju undirritaðs og þeim upplýsingum sem hann hefur aflað sér var útskriftarhlutfall fanga í framhalds- og háskólanámi margfalt hærra þegar tölvur voru leyfðar í lokuðum fangelsum. Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg tæknibylting í námi, þar sem tölvur eru ómissandi hluti þess. Þessi þróun hefur orðið til þess að fangar í lokuðum fangelsum verða útundan, þar sem þeim er meinaður aðgangur að nauðsynlegri tækni til að stunda nám á jafnréttisgrundvelli.

Lágmarks mannréttindi

Aðgangur að tölvum er ekki munaður heldur lágmarks mannréttindi í nútímasamfélagi. Tæknileg einangrun fanga er skref aftur á bak þegar kemur að menntun, endurhæfingu og samfélagsaðlögun.

Tölvunotkun hefur margþætt og jákvæð áhrif, hún veitir föngum aðgang að menntun og þjóðfélagsmálum, heldur þeim virkum og auðveldar þeim að aðlagast samfélaginu að nýju. Nútíma atvinnulíf krefst þekkingar á tölvu, með því að takmarka aðgang fanga að þessari tækni er verið að gera þá að eftir bátum samfélagsins. Þetta eykur hættuna á að þeir fari aftur í afbrot þar sem þeir standa verr að vígi til atvinnulífsins. 

Hvatar til náms og endurhæfingar

Fangelsi eiga ekki að vera geymslur; þau eiga að vera endurhæfingarmiðstöðvar sem styðja við betrun einstaklinga. Nauðsynlegt er að innleiða hvata innan kerfisins sem hvetur fanga til náms eða annarrar uppbyggilegrar starfsemi, svo þeir geti snúið aftur út í samfélagið með ný markmið og leið til betra lífs.

Ef fangar eru hvattir til náms með bættum kjörum og auknum möguleikum á menntun, aukast líkurnar á því að þeir nýti fangavistina til uppbyggingar fremur en áframhaldandi óreglu og óminnis. Til þess að þetta sé mögulegt, þurfa fangar að hafa aðgang að tölvum alla daga, frá morgni til kvölds.

Hvatar geta verið félagslegir, fjárhagslegir eða fræðilegir. Félagslegir hvatar geta falið í sér aukin réttindi fyrir þá sem stunda nám, fjárhagslegir geta veitt afslátt af sektum og sakarkostnaði eða tryggt aðgang að vinnu innan fangelsis, og fræðilegir verið í formi námsstyrkja eða aukins stuðnings við menntun. Slíkir hvatar leiða til jákvæðra breytinga í hugsun og hegðun, sem er lykillinn að nýjum tækifærum.

Samfélagslegur ávinningur

Það er samfélagslegur ávinningur að fangar hafi aðgang að tölvum og menntun. Með því að gera þeim kleift að afla sér þekkingu og færni minnka líkur á endurteknum brotum og skilar til samfélagsisns sterkari og betri einstaklingum. Skilaboðin ættu að vera skýr: Menntun er máttur, lykillinn að betra lífi, samfélagið á að styðja við þá sem vilja breyta lífi sínu.

Það er kominn tími til að endurskoða núverandi stefnu um að takmarka aðgang fanga að tölvum. Þeir sem vilja mennta sig eiga ekki að vera hindraðir í því. Með hvetjandi úrræðum og aðgengi að tölvum er hægt auka möguleika fanga að betra lífi og skapa betra samfélag fyrir alla.


Frumkvöðlastarf Bata Akademíunnar - Íslenska Leiðin

Bati innan fangelsiskerfisins

Þegar undirritaður horfir í baksýnisspegilinn með smá beisku en þó með þakklæti í brjósti og huga. Sé ég hvar gleði og þjáning ferðast á lífshjóli batans, þar sem þær vagga fram og aftur á akri lífsins.

Þrátt fyrir að Ísland sé eina Norðurlandaþjóðin sem enn fylgir refsistefnu í fangelsismálum, má finna betrun í grasrótarstarfi Bata Akademíunnar, þar sem félagasamtökin vinna að endurhæfingu og betrun í samstarfi við fanga og fyrrum fanga.

Lífið er síbreytilegt, og hvert andartak speglast í eilífð augnabliksins.

Þegar ég hugsa til baka þá hefst saga Bata Akademíunnar og það grasrótarstarf sem hefur umbreytt virkni og hópefli í Íslenskum fangelsum árið 2004, þegar Tolli og Mundi byrjuðu að koma með fundi á Litla-Hraun, sem hefur verið nær óslitin hefð í rúm 20 ár. Þar sem undirritaður kynntist þessu óeigingjarna starfi þeirra og hefur verið hluti af því starfi síðan, en þó með hléum.

AA starf og uppbygging innan fangelsa

Eins og með allt, þá byrjar allt á einhverju og við getum kallað það grasrótina sem var að mestu leyti byggð á AA fundum. Þessar litlu tengingar sem uxu í þjáningu eymdarinnar urðu til tengingar þar sem menn upplifðu von og traust. Þar sem upphafsmenn Bata Akademíunnar byrjuðu að styðja við fanga innan fangelsisins.

Með tímanum fór hugleiðsla og jóga að fléttast inn í fundina, hugleiðslunni höfðu þeir kynnst í gegnum Hugleiðslu- og friðarmiðstöðina á Grensásvegi. Með samvinnu þeirra var þýddur bæklingur um núvitund eftir Paul Gilbert og Choden, sem var sérstaklega þýddur með það í huga að kenna föngum á Litla-Hrauni og Bitru sem er Sogn í dag núvitund. Núvitund hefur reynst ómetanleg tækni til að styrkja fanga í erfiðum aðstæðum, „sagt af reynslu”.

Smá saman myndaðist öflugt AA samfélag innan veggja fangelsisins sem varð sjálfbært með tímanum. Samstarfið við edrú fanga skilaði sér í fjölbreyttum viðburðum, svo sem AA ráðstefnum og kynningu á óhefðbundnum leiðum eins og hugleiðslu og jóga.

Nánari samskipti og jákvæðar breytingar

Meðan Margrét Frímannsdóttir var forstöðumaður fengu fangar stundum að taka þátt í hugleiðsluhelgi í Hlíðardalsskóla sem var haldin á tveggja mánaða fresti. Þessar hugleiðluhelgar voru skipulagðar af fyrrum fanga, með aðstoð grasrótarinnar sem var til staðar fyrir hann í hans aðlögun að samfélaginu.

Grasrótarstarfið þroskaðist og á endanum var Bata Akademían stofnuð sem formleg félagasamtök. Samtökin halda reglulega fundi í fangelsunum á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. Vaxtakippur hefur átt sér stað innan Bata Akademíunnar, þó Bata Akademían hafi upphaflega byrjað að vinna með karlföngum, þá hefur starfið vaxið og dafnað, og Bata Akademían hefur byggt upp öflugt starf meðal kvenfanga. Fyrrum kvenfangar hafa bæst í hópinn með rödd valkyrjunnar, og gefið rýminu nýjan lit. Í gegnum Covid-tímabilið notuðu samtökin fjarfundabúnað til að viðhalda starfinu, með fundi tvisvar í viku, þar sem öndunartækni og hugleiðsla var kennd.

Mikilvægi jafningjastuðnings

Kjarninn í þessu starfi er að mæta föngum sem jafningjar, með virðingu og kærleik að leiðarljósi. Bata Akademían leggur áherslu á að hjálpa föngum að finna sinn innri kraft, taka ábyrgð og byggja upp betra líf.

Árangurinn er óumdeilanlegur; fjöldi einstaklinga hefur náð að breyta lífi sínu til hins betra í gegnum starf Bata Akademíunar.

Samstarf við ríkið - aftur út í samfélagið

Undir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur voru myndaðir starfshópar, þar sem fulltrúar annarra ráðuneyta voru fengnir til að koma með tillögur að úrbótum í fangelsismálum. Þar var Þorlákur Morthens fenginn ásamt Agnari Bragasyni sem er í dag forstöðumaður Batahúsins, en Agnar er einn af þeim sem hóf að starfa með grasrótinni meðan hann var að afplána sinn dóm. Í framhaldi var Bati Góðgerðarfélag stofnað, sem rekur þrjú búsetuúrræði fyrir fanga bæði karla og konur, sem eru að koma út í samfélagið og hefur árangur þess gefið góða raun.

Eftirspurn eftir þessum úrræðum er mikil, og ljóst að nauðsynlegt er að efla og styrkja þau enn frekar.

Svett á Sogni og Kvíabryggju

Á síðasta ári byrjaði Bata Akademían að koma reglulega með Svett á Sogn, hefur það styrkt og kjarnað hópinn betur saman er þar dvelja, sem hefur haft jákvæð áhrif á orku og jafnvægi einstaklinganna, með sérstakri áherslu á að efla sjálfsábyrgð þeirra. Einnig hefur Bata Akademían farið með Svett á Kvíabryggju.

Íslenska leiðin

Engin önnur starfsemi innan Íslenskra fangelsa hefur skilað jafn góðum árangri og grasrótarstarf Bata Akademíunnar. Samfellt ferli frá fangelsi og út í samfélagið, þar sem einstaklingar eru stuttir til hæfnis og bata, það hefur skilað þeim árangri að hægt er að tala um „Íslensku leiðina“.

Það fallega við þetta óeigingjarna starf er að við erum allavegana, við rennum til á svellinu og okkur er rétt hjálparhönd, í mildi kærleikans.

Þetta er þverfaglegt samstarf fanga, fagaðila í áfallameðferð og fíknifræði, auk aðila frá helstu meðferðarstofnunum.

Þrátt fyrir að ýmis vandamál séu enn til staðar í fangelsismálum hefur „Íslenska leiðin“ sannað sig sem fyrirmynd í endurhæfingu, betrun og betri framtíð.

Það má ekki gleyma því að allt þetta starf hefði ekki verið gerlegt án Fangelsismálastofnunar, og eiga þau sem hafa tekið þátt í þessari þróun mikið þakklæti skilið. „Takk, takk fyrir okkur, takk fyrir ykkur.“


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband