28.3.2025 | 21:51
Hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Það er sorglegt sjá eftir góðum drengjum sem falla fyrir eigin hendi í fangelsi vegna sinnuleysis og það er enn sorglegra að verða vitni að hvað sumum starfsmönnum Fangelsismálastofnunar er skítsama um sína skjólstæðinga. Í þeirra augum er fangi bara launaseðill. Ég er búinn að þvælast í þessu kerfi síðustu 25 árin, ég get ekki sagt að ég sé stoltur af því, en þetta er staðan. Ég upplifi sífellt sömu mannvonskuna og mannfyrirlitninguna og þegar Kristján Stefánsson var forstöðumaður Litla-Hrauns. Hann átti fullt í fangi með eitt fangelsi og það að Halldór Valur Pálsson skuli vera forstöðumaður yfir þremur er algjörlega galið. Hann hefur engan metnað þegar kemur að föngum. Það er ekkert gert fyrir skjólstæðinga eða aðstandendur, Núll!
Ég er búinn að vera í einu af þessum þremur fangelsum í 5 mánuði og hef ekki ennþá séð Halldór Val, og hann er titlaður forstöðumaður! Er ekki kominn tími til að breyta? Það er svo margt sem hefur farið aflaga, ég ætla ekki að kenna neinum um það, en ábyrgðin er forstöðumannsins. Þegar Margrét Frímannsdóttir var forstöðumaður Litla-Hrauns og Sogns var annar háttur. Jújú, sumt kannski umdeilt, en hún leit á fanga sem fólk. Hún kom með mennskuna og gaf mönnum von. Vonin er bara eitt það mikilvægasta sem hægt er að gefa mönnum í þessari stöðu. Þeir fengu tækifæri til að finna sjálfa sig og vinna í sér. Hin og þessi námskeið voru í boði. Að vinna með höndunum og list, að ógleymdum sjálfstyrkingarnámskeiðunum sem haldin voru reglulega, hugrænum atferlismeðferðum og reiðistjórnunarnámskeiðum.
Meðferðagangur
Þar störfuðu fyrst um sinn þrír. Þau náðu vel til fanganna. Í dag er einn meðferðarfulltrúi sem er á engan hátt boðlegt. Það er eins og verið sé að bíða eftir að hann gefist upp, þá verður hægt að loka því sem þeir kalla í dag edrúgang. Því miður. En kannski er það bara mín upplifun að allt það góða sem Margrét kom með hafi endað í pappírstætaranum hjá forstöðumanni, öll mennska farin.
Í dag er Litla-Hraun stjórnlaus dýragarður. Oft er sagt að þjálfarinn missi klefann, hann er búinn að missa húsið með áhugaleysi. Það skrifast á þann sem stýrir Litla-Hrauni, Halldór Val og kannski bara ofurlítið líka á alla aðra er koma að stjórnun fangelsismála innan stjórnsýslunnar! Ég get lofað einu: ef komið fram við fanga eins og hunda þá haga þeir sér eins og hundar, verða grimmari. En ef komið er fram við þá eins og manneskjur fara þeir kannski að haga sér eins og manneskjur. En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Ég væri glaður til í að hjálpa, deila minni sýn og hugmyndum. En það er kannski fyrir neðan virðingu fangelsismálastofnunar þar sem ég er einn af skítugu börnum hennar Evu! Hvernig væri að færa skólastarfið í fyrra horf þar sem menn gátu lært og höfðu sömu möguleika og hinn frjálsi maður? Þegar menn gátu tekið þátt í tímum með fjarfundarbúnaði.
Tölvur inn á klefum
Allt venjulegt námsefni fer fram í tölvu, tölvan í dag er það sem bækurnar og gamli góði blýanturinn voru hér áður, verkfæri þar sem allt er á einum stað og námsefnið á alnetinu. Það eru fyrstu þrír bekkirnir í grunnskóla sem hafa ekki tölvur, til að setja okkur í samhengi við það sem er að gerast í samfélaginu. Tölvur voru teknar af föngum vegna þess að nokkrir fangar brutu af sér og það er látið bitna á öllum. Litla-Hraun er deildarskipt eins og staðan er í dag. Sjö deildir. Engin mismunun. Menn vinna sér inn réttindi, gamla góða gulrótarkefið. Menn verða hafa eitthvað til að vinna að. Í dag fer allt fram í gegnum tölvur. Af hverju má fangi ekki vera upplýstur um hvað er að gerast utan girðingar, hvernig verður hann betri ef honum er bara alltaf haldið í myrkrinu? Dýrin eru að vísu verðlaunuð fyrir gott verk, með nammi. Það þarf að vera miklu meiri viðvera og virkni í fangelsunum. En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Fleiri úrræði
Það er ekki nóg að vera með opin fangelsi þó þau séu frábær, ég ætla ekki að gera lítið úr þeim. Það verður líka að vera eitthvað að gera fyrir vistmenn annað en að hangsa. Það þarf að vera tilgangur, það er ekki nóg að henda bara föngum á milli geymslna! Tökum dæmi af einu af þessum opnum úræðum. Það er tekið beint upp úr skýrslu Ríkisendurskoðanda sem kom út í nóvember 2023, og snertir Sogn hvað varðar vinnu og virkniúrræði:
Framboð starfa, náms og annarra virkniúrræða
Boðið er upp á tækifæri til starfa, náms og annarrar virkni í Fangelsinu Sogni. Sú vinna
sem föngum býðst er t.a.m. störf í eldhúsi, við fiskeldi, garðvinnu, viðhald og umhirðu á
hænum sem haldnar eru á staðnum. Þá bjóðast ýmis störf í nágrenninu í samvinnu við
bændur og aðra aðila.
Allt lítur þetta vel út á prenti en reyndin er önnur. Garðvinna og viðhald á Sogni er bara yfir sumartímann sem telur heila þrjá mánuði. Fiskeldi og ýmis störf í nágrenninu í samvinnu við bændur og aðra aðila er ekki lengur í boði og megum við þakka það metnaðarleysi forstöðumanns á Litla-Hrauni, Hólmsheiði og Sogni. Hjá honum er enginn vilji að hafa fangelsi sem betrun, stað til að hjálpa mönnum að vinna í sjálfum sér eða finna sjálfa sig. Það er enginn hvati til að gera betur. En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Eftirfylgnin
Þegar fangi kemur út er ekkert sem tekur við, ekkert sem tekur utan um hann. Fangelsismálastofnun og starfsmenn Verndar berja sér á brjóst fyrir Vernd en því miður er hún barn síns tíma. Vernd var hugsuð fyrir þá sem höfðu ekki í nein hús að venda. Vernd á vel við þá sem eru einstæðingar, ekki fjölskyldufólk, þar sem fanginn getur ekki verið með fjölskyldunni sinni á einum af mikilvægustu stundum dagsins, kvöldmatartíma því hann/hún á að vera inni á Vernd milli kl 18 og 19 alla virka daga en ekki um helgar. Skýringin er sú að hægt verði að fylgjast með hvort fanginn sé í neyslu, já fangar fá sér ekki um helgar! FANGI sem er fjölskyldumaður/kona á Vernd þarf að vinna fyrir leigu á rúmi (fangar deila herbergi með öðrum föngum á Vernd) um 100.000 kr á mánuði. Þeir reka líka heimili fyrir fjölskyldur sínar auk þess að burðast með aðrar skuldir sem hlaðast upp á þeim tíma sem fangarnir hafa verið frá, fyrir utan himinháan dóms- og sakarkostnað. Ef fangi hefur getu og er fær um, ætti hann að vera með ökklaband heima hjá sér á Verndartímanum sem og ökklatímanum. Ef við horfum á samfélagsþjónustu þá er hún 2 ár og verið er að tala um að lengja hana í 3 ár. Sá sem er búinn að vera lengi inni í fangelsi upplifir sig utangátta, þar sem geta hans hefur verið skert í virkni og hugsun. En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Meðferðarúrræði fyrir fanga
Eins og staðan er dag er engin meðferðaráætlun í gangi líkt og kveðið er á um í lögum um fullnustu refsinga:
Fangelsismálastofnun skal, í samvinnu við fanga, gera meðferðaráætlun fyrir fanga sé það
talið nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar. Áætlunina skal gera eins
fljótt og kostur er eftir að afplánun hefst og endurskoða eftir atvikum meðan á afplánun
stendur.
Ég hugsa að það sé hægt að telja á fingrum annarrar handar, ef það er yfirleitt hægt, það að finna undirskrift fanga með uppáskrifaða meðferðaráætlun. Mér skilst að sálfræðingar Fangelsismálastofnunar séu fjórir og svo hefur bæst við geðheilsuteymi. Tveir til þrír sálfræðingar sem gera lítið annað en að taka snubbótt viðtöl og mæla með lyfjanotkun við ópíum og ADHD, kannski fer ég með rangt mál. Er eðlilegt að einn maður taki 18 pillur á dag? Ég veit um einn fanga sem er búinn að vera að biðja um hjálp. Það svar sem hann fær er að fangelsi sé ekki staður til að vinna úr áföllum. En er fangelsi ekki bara besti staðurinn til að byrja að vinna í áföllum og sjálfum sér? Þegar viðkomandi er kominn í þessa stöðu? En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Meðferð snýst ekki bara um vímuefni. Nei, hver og einn fangi á sína áfallasögu sem þarf
að vinna með. Vímuefni verða oftast birtingarmyndin þar sem hver og einn leitar sér lausnar í vímu vegna vanlíðunar. Það sem gleymist alltof oft er að athuga upphafið og rót vandans. Ég er engin fræðimaður, en ég er manneskja sem veit hvernig það er að lenda í og sitja í fangelsi. Er ekki kominn tími til að skríða upp úr skotgröfum embættismannsins og fara að vinna með fanga sem fólk, ekki bara einhverjar tölur eða enn eitt líkanið á excel? Það verður enginn árangur í betrun eða meðferð ef mennskan og kærleikurinn er ekki með í ráðum. Það þurfa allir að finna að þeir hafi tilgang! En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Hvernig manneskjur viljum við?
Ég sem manneskja hef alveg fundið fyrir uppgjöf og hugsað til hvers er að lifa þessu lífi. Það þurfa allir að hafa tilgang, ef það er enginn tilgangur þá er bara eitt sem tekur utan um fangann. Það er systir óttans, eyðandi eymdin. Starfsmenn fangelsismálastofnunar eru með líf og heilsu manna í höndum sér í þessu meingallaða fangelsiskerfi. Mörg þeirra halda að þau séu betri en skjólstæðingar sínir, en ég leyfi mér að segja að þar fara þau villur vegar. Hafið hugfast að fæstir sem eru í fangelsi hafa fengið sömu spil og þau í upphafi. En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
Hvernig vill samfélagið fá fanga aftur út í samfélagið, virka eða óvirka? Eins og staðan er í dag þá er enginn vilji hjá stjórnendum fangelsa eða ráðamönnum að fangar fái að finna til mennskunnar. Eins og staðan er í dag eru fangelsin mislélegar kjötgeymslur.
En hvað veit ég? Ég er bara fangi!
28.3.2025 | 21:49
Sorgmæddur ferðast hugurinn
Að lenda í fangelsi er áfall. Það er bæði áfall fyrir þann sem fer í fangelsi og líka aðstandendur viðkomandi. Í raun tekur það jafnvel meira á aðstandendur en þann sem situr inni. En því miður er þessi hópur fólks týndur í kerfinu. Aðstandendur eiga erfitt með að leita sér hjálpar vegna þeirrar skammar sem þeir upplifa og fangar fá takmarkaða hjálp þótt þeir gjarnan vildu þiggja hana. Flest allir innan kerfisins glíma við ýmsar raskanir, áföll og fíknir sem eiga sinn þátt í að viðkomandi er í þeirri stöðu sem hann/hún eru í. Kerfið er eins grátt og það getur verið. Það má ekki sýna tilfinningar. Tilfinningar eru eins og blygðunarlaust klám.
Í upphafi skyldi endinn skoða
Dómsmálaráðherra og æðstu forkólfar innan Fangelsismálastofnunar fara mikinn þar sem allt á að verða svo frábært með nýju fangelsi og fjölgun rýma á Sogni. Allt lítur þetta voðalega vel út á prenti og í orði. Hvað ætla þau að gera við þessa 14 einstaklinga sem verður bætt við á Sogn? Það er ekki nóg bara að fjölga rúmum. Það þarf líka að vera eitthvað við að vera fyrir þessa einstaklinga. Staðan á Sogni er þannig í dag að þar eru ekki næg verkefni fyrir þá vistmenn sem þar eru fyrir. Hvernig væri að byrja á réttum enda?
Í upphafi skyldi endinn skoða segir máltækið. Það er eins og það sé ætlun kerfisins að framleiða bara iðjuleysingja og glæpamenn. Hvernig væri að byrja núna að gera betur? Síðustu ár hefur átt sér stað algjör stöðnun í meðhöndlun fanga, algjör hnignun í mannlegri nálgun. Sem lýsir sér best í því stjórnleysi sem þrífst á Litla-Hrauni. Þar ríkir sú ranga hugsun að fangar eiga ekki að geta fylgt þróun samfélagsins og vaxið sjálfir sem manneskjur inni í fangelsi. Þegar Hólmsheiðin var byggð átti allt að verða svo miklu betra en hún var í raun ákveðið stórslys þegar kemur að aðbúnaði fyrir fanga.
Hólmsheiðin var hönnuð sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi, og kvennaálmu var bætt við síðar, en í dag er hún í raun orðin afplánunar-og öryggisfangelsi. Aðbúnaðurinn sem þar er hæfir engan vegin því hlutverki. Með margumtöluðu nýju fangelsi vona ég innilega að það verði sett meiri hugsun í aðbúnað fyrir fanga í virkni og andlegri vinnu. Að fangelsiskerfið verði fært í nútímabúning þar sem fangar geti fylgt samtímanum í þeirri stöðu sem þeir eru. Að fangar hafi eitthvað við að vera og að það nýja fangelsi verði ekki enn ein skrímsla geymslan.
Allt hækkað nema laun fanga
Dagpeningar, laun/þóknun og fæðispeningar er eitthvað sem þarf að taka strax til endurskoðunar. Fangar verða að geta haldið smá sjálfsvirðingu þó takmörkuð sé. Fangar sem vinna fá í laun/þóknun 415 kr. á tímann. Þeir fangar sem hafa enga vinnu fá 3.150 kr á viku í dagpening til að kaupa sér nikótín eða það sem þeir þurfa.
Þeir fangar sem elda ofan í sig sjálfir fá 1.700 kr á dag sem er engan vegin nóg ef við horfum þá verðlagsþróun sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Laun/þóknun hafa ekki hækkaði síðan árið 2009. Þá í 415 kr. Þá kostaði sígarettupakkin rúmar 500 kr EN í dag kostar sígarettupakkin 1.700 kr. Að fá 3.150 kr á viku í dagpeninga er skammarlegt ef horft er til verðlagsþróunnar í samfélaginu. Að fangar fái 415 kr á tímann fyrir vinnuframlag sitt er satt að segja ömurlegt. Þetta er mikil niðurlæging og vanvirðing við einstaklinginn.
Fangar í ruslflokki
Nú segja fagaðilar við fanga að fangelsi sé ekki rétti staðurinn til að vinna í áföllum. Mín skoðun er sú að fangelsi sé reyndar besti staðurinn til að vinna í áföllum. Þegar fanginn er fyrst kominn í þessa stöðu verða til tækifæri til að gera eitthvað. En eftir því sem lengra líður og ekkert er gert verður oft erfiðara að nálgast meinið. Ég hef orðið vitni að því þegar fangar festast í spíral áfalla sem ekki hefur verið unnið úr. Það er sorglegt. Það að fangar þurfi að fá leyfi til að leita sér hjálpar hjá sálfræðingum utan fangelsisins á sinn eigin kostnað sýnir getuleysi starfsmanna geðsviðs fangelsismálastofnunar. Sálfræðitími kostar 23.500 kr og síðan þarf viðkomandi að koma sér sjálfur til og frá sálfræðingi.
Þetta er mikill kostnaðarauki. Einn sálfræðitími getur því kostað fanga sirka 65 klukkustundir í vinnu. Er það sanngjarnt? Þetta er eins óheilbrigt og það verður. Þetta er í raun hreint og klárt ofbeldi. Annað dæmi gæti verið þegar fangi vill fá klippingu. Hún kostar 6.500 kr sem gerir 16 vinnustundir fyrir fangann. Er það sanngjarnt? Enn og aftur er verið að níðast á fanganum. Það er reynt eins og hægt er að hamla föngum að geta sótt sér aðstoð eða haldið sér til. Þetta er ekkert annað en ofbeldi eða mannfyrirlitning. Af hverju þarf að koma fram við fanga eins og rusl. Það er mín upplifun að okkar prúða samfélag hafi með öllu okkar góða fólki flokkað fanga í ruslflokk. Það virðist því miður gleymast hjá góða fólkinu að fangar eiga líka fjölskyldur sem allar hafa tilfinningar.
Fagurgali í stað aðgerða
Það vantar ekki fínu orðin á heimasíðu fangelsismálastofnunar en þar segir: Meginmarkmið með fangelsun: Að föngum sé tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi og fyrir hendi verði aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við sín mál. Eina innistæðan í þessum fína orðaflaumi er: mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi, restin er innihaldslaust skraut. Því miður. Ég spyr í einlægni, hvað varð um endurhæfinguna og þá betrun sem áður var í fangelsiskerfinu? Skyldi einhverjir fleiri spyrja sig að því?
12.3.2025 | 08:12
Rafrænn heimur
Framtíð frelsis eða alræðisvald?
Á ógnarhraða ferðumst við inn í stafrænan heim og á sama tíma hverfur vald almennings yfir eigin lífi. Samskipti, viðskipti og fjármál eru nánast alfarið háð alnetinu, en hvað gerist ef alnetið bilar eða hrynur? Hvað ef stjórnvöld og stórfyrirtæki öðlast alræðisvald yfir fjármálum, upplýsingum og persónulegum gögnum almennings?
Hér verður farið yfir hvernig aukið rafrænt eftirlit, fjármálakerfi án reiðufé og hvernig aðgerðir stjórnvalda hafa smám saman verið að rýra persónufrelsi og færa samfélög nær stjórnarháttum fyrri einræðisríkja. Einnig verður stiklað á leiðum til að verja frelsi einstaklingsins og koma í veg fyrir að þessi þróun leiði okkur inn í, Alræðisríkis Kúgun.
Takmörkun á reiðufé
Í mörgum löndum er reiðufé á hröðu undanhaldi og almenningur er þvingaður til að notast við rafrænar greiðslur. Þó það virðist vera þægilegt og einfalt, gerir þessi þróun almenning háðan fjármálakerfi sem stjórnvöld og bankar ráða yfir. En hvað gerist ef tæknin bregst? "Computer says no", ekkert samband við alnetið og enginn kemst í peningana sína?
Við slíkar aðstæður gæti samfélagið lamast. Verslanir gætu ekki afgreitt viðskiptavini, fólk gæti ekki keypt nauðsynjar og daglegt líf myndi stöðvast. Dæmi: Í náttúruhamförum eins og fellibylum hafa rafmagnsleysi og netbilanir valdið því að fólk hefur ekki getað keypt mat eða lífsnauðsynjar.
Svört markaðsviðskipti myndu blómstra, þar sem vörur og þjónusta yrðu gjaldmiðill í stað rafrænna greiðslna. Dæmi: Í Grikklandi árið 2015, þegar fjármálakreppan reið yfir og bankar lokuðu, gátu aðeins þeir sem áttu reiðufé keypt mat og nauðsynjar. Þeir sem treystu alfarið á rafrænar færslur stóðu hjálparvana.
Á sama tíma yrði ljóst hversu mikið vald stjórnvöld og bankar hafa yfir fjármálum almennings, þar sem rafrænir reikningar gætu verið frystir eða gerðir óaðgengilegir. Dæmi: Í Kanada árið 2022 frystu stjórnvöld bankareikninga mótmælenda án dómsúrskurðar, sem sýndi hversu auðvelt það er fyrir stjórnvöld að takmarka aðgengi fólks að eigin fjármunum.
Þessi þróun útilokar einnig viðkvæma hópa, eins og eldri borgara og efnaminni einstaklinga, sem oft eiga erfitt með aðlagast tækninni og eru háð opinbera kerfinu. Án reiðufé verður þessi hópur algjörlega háður fjármálakerfi sem getur útilokað þá með einu músarklikki.
Aukin völd löggæslu og stjórnvalda
Löggæsla um allan heim er nú að sækjast eftir alræðisvaldi sem minnir óneitanlega á aðferðir Gestapo í Þýskalandi og Stasi í Austur-Þýskalandi. Með tæknilegum úrræðum eins og allsherjarvöktun, andlitsgreiningu og fjármálalegum inngripum eru stjórnvöld sífellt meira og meira að skerða frelsi borgaranna, sem þau réttlæta með sinni forræðishyggju, öryggi og forvarnaraðgerðum, sem ber keim af aðferðum Gestapo og Stasi á einum myrkustu tímum sögunnar.
Með rafrænu eftirliti, gagnaöflun og andlitsgreiningu hafa stjórnvöld auknar heimildir til að fylgjast með borgurum sínum, skrásetja hegðun þeirra og jafnvel beita þeim fjárhagslegum þvingunum. Dæmi: Patriot Act í Bandaríkjunum veitti stjórnvöldum auknar heimildir til að fylgjast með borgurum sínum eftir hryðjuverkaárásirnar 2001. Þessi lög hafa verið gagnrýnd fyrir að skerða friðhelgi einkalífsins. Og í Kína hefur "Social Credit System" verið innleitt, þar sem borgarar eru metnir eftir hegðun sinni og geta misst aðgang að opinberri þjónustu ef þeir fara ekki að kröfum stjórnvalda.
Það sem áður var handvirk njósnastarfsemi, eins og hjá Stasi í Austur-Þýskalandi, er nú sjálfvirkt og nákvæmara en nokkru sinni fyrr með gervigreind og ofurgagnagreiningu. Dæmi: Í Bretlandi hafa lögregluyfirvöld prófað andlitsgreiningu í rauntíma á fjölförnum stöðum, sem hefur leitt til þess að saklausir einstaklingar hafa verið ranglega merktir sem glæpamenn. Og í Frakklandi voru drónar notaðir til að fylgjast með borgurum í COVID-19 faraldrinum og tryggja að útgöngubann væri virt.
Þessi þróun hefur einnig mikil áhrif á fjölmiðlafrelsi. Í mörgum löndum hafa stjórnvöld aukið áhrif sín á fjölmiðla og samfélagsmiðla, ritskoðað gagnrýnis raddir og stjórnað upplýsingaflæði með stafrænum leiðum. Dæmi: Í Rússlandi hafa stjórnvöld notað netritskoðun til að hindra aðgang almennings að óháðum fjölmiðlum, sem tryggir að aðeins samþykktar upplýsingar fá að berast út. Og á tímum Gestapo var fjölmiðlafrelsi afnumið og aðeins áróður stjórnvalda var leyfður.
Það sem áður krafðist umfangsmikillar leyniþjónustu er nú framkvæmt á sekúndubroti með örfáum skipunum í hugbúnaði.
Hvernig getur almenningur varið sig?
Þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki auka völd sín í skjóli stafrænnar þróunar, verður almenningur að vera vakandi og grípa til aðgerða. Ef ekkert er að gert, gæti eftirlitskerfið fest sig í sessi og svipt einstaklinga fjárhagslegu og persónulegu frelsi sínu.
Viðhalda reiðufé sem valkosti
Reiðufé tryggir að almenningur hafi full fjárráð og vald á sínum fjármunum, og eigin viðskiptum. Ef það hverfur, verður fólk algjörlega háð rafrænum greiðslukerfum sem stjórnvöld og bankar stjórna.
Efla gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi
Mikilvægt er að skilja hvernig stjórnvöld og stórfyrirtæki beita tækni til að auka vald sitt. Almenn krafa um gagnsæi í lagasetningu um stafrænt eftirlit og persónuvernd er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir misnotkun.
Nota dulkóðuð samskipti
Friðhelgi einkalífsins er sífellt ógnað með stafrænu eftirliti. Notkun dulkóðaðra samskiptaleiða, eins og Signal og ProtonMail, geta hjálpað einstaklingum að vernda sig gegn óþarfa vöktun.
Standa gegn ritskoðun og misnotkun á tækni
Fjölmiðlafrelsi er undirstaða lýðræðis. Mikilvægt er að styðja sjálfstæða fjölmiðla og krefjast þess að samfélagsmiðlar og önnur stafræn tól séu ekki notuð sem vopn til pólitískrar kúgunar.
Niðurstaða
Stafræn þróun hefur fært samfélaginu ýmis tækifæri, en á sama tíma aukið efnahagslega stjórn stjórnvalda og stórfyrirtækja. Við stöndum á tímamótum þar sem tæknin veitir ómæld þægindi en getur jafnframt leitt til stjórnkerfis sem rænir fólk fjárhagslegu og persónulegu frelsi.
Ef við grípum ekki til aðgerða núna og stöndum vörð um frelsið, munum við í framtíðinni standa frammi fyrir spurningunni:
Hvernig leyfðum við þessu að gerast?
7.3.2025 | 07:45
Óhóflegt Vald Lögreglu Stofnar Lýðræði Íslands Í Hættu
Nú stendur til að lagt verði fram nýtt frumvarp sem á að veita lögreglu víðtækari heimildir til endurheimtar ávinnings af afbrotum. Þó þessar breytingar séu ætlaðar til að auka skilvirkni og efla getu lögreglu í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þá eru þær ekkert annað en aðför að stjórnarskránni sem leggur ríka áherslu á að vernda mannréttindi, þar á meðal réttinn á friðhelgi einkalífs. Í Stjórnarskrá kemur skýrt fram:
- 71.grein: Þar segir að allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Einnig er kveðið á um að ekki megi safna upplýsingum um einkalíf manna, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.
- 72.grein: Tryggir að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema samkvæmt lögum og gegn fullum bótum.
Í frumvarpinu er lagt til að lögreglan fái heimild til að óska eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum án dómsúrskurðar. Slík heimild er mikið áhyggjuefni þar sem hún eykur verulega möguleika á því að lögreglan geti handahófskennt rannsakað fjármál einstaklinga án nokkurs eftirlits.
Sagan hefur sýnt að lögregluyfirvöld sem hafa notið of mikils sjálfstæðis án gagnsæis og eftirlits eru mun líklegri til að misbeita valdi sínu. Þessar breytingar fara á svig við persónuverndarlög, þar sem þau leggja mikla áherslu á vernd einstaklinga gagnvart óréttmætri og ólögmætri vinnslu persónuupplýsinga.
Þá er áhugavert að skoða að í þessu frumvarpi er nýtt fyrirkomulag sem gerir ráð fyrir stofnun sérstakrar einingar hjá héraðssaksóknara til að endurheimta ávinning af afbrotum. Á prenti virkar þetta sem jákvætt skref en um leið vekur það spurningar um sjálfstæði og vald þessarar einingar, í ljósi þess að lögreglan hefur þegar sýnt merki um ofríki og spillingu.
Að auki vekja breytingar á ákvæðum sakamálalaga, sem auðvelda lögreglu að haldleggja eignir, alvarlegar áhyggjur. Með því að veita lögreglu slíkar heimildir án nægilegra varna gegn misnotkun skapast hætta á að borgarar geti orðið fyrir óréttlátum og jafnvel ólögmætum afskiptum af hálfu yfirvalda.
Það er óhætt að segja að slíkar lagabreytingar, sem auka vald lögreglu án þess að styrkja jafnframt eftirlit með beitingu þess valds, grefur undan grundvallaratriðum lýðræðisins. Í lýðræðisríki á lögreglan ekki að vera yfir lög hafin, heldur þvert á móti á hún að vera undir ströngu eftirliti til að tryggja að hún misnoti ekki vald sitt.
Þetta frumvarp er ekki bara hættulegt það er stórhættulegt, þar sem það er teiknað upp með það í huga að veita lögreglu einræðislegt vald, sem opnar hlið af valdníðslu af verstu sort og umbreytir lögreglu í óhefta drottnara sem starfa án laga og réttar, þar sem mannréttindi verða af máð af vettugi lýðræðisins.
Ef þessar breytingar á löggjöfinni fara fram án þess að bætt sé úr núverandi vanköntum í eftirlitskerfinu, er hætta á að við sjáum aukna spillingu og valdníðslu lögreglu, sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni. Það er skylda stjórnvalda að tryggja að breytingar á lögum styrki réttarkerfið án þess að fórna grunnstoðum réttarríkisins.
Eins og þetta frumvarp horfir fyrir mér er þetta klár aðför að stjórnarskrá og lýðræði landsins, því tel ég nauðsynlegt að Alþingi og aðrir hlutdeildaraðilar í íslenskri stjórnsýslu beiti sér fyrir því að koma á skilvirkara sjálfstæðu eftirliti með lögreglu. Það er brýnt að slíkt eftirlit sé meðhöndlað af óháðum aðila sem hefur það hlutverk að gæta að hagsmunum almennings og standa vörð um borgaraleg réttindi gegn mögulegri misbeitingu lögregluvalds, "Stasi".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)