Súrefnið á þrotum

Nú er elítu fjármálakerfisins nóg boðið. Að verkalýðshreyfingin hafi sýnt af sér þvílíka ósvífni, hafa dregið almenning á Austurvöll til þess eins að mótmæla því ofbeldi sem á sér stað innan fjármálakerfisins og það við setningu Alþingis. Þar sem fjármálaráðherra vors lands, Sigurður Ingi, kynnti fjárlög ríkisins með yfirskriftinni „þetta er allt að koma“. Það er smá slagsíða, bara halli upp á 41 milljarð króna. Alltaf sama tuggan, það á að forgangsraða verkefnum. Hækka álögur á bílaeigendur sem og á reykinga- og drykkjufólk. Kannski lækkar greiðslubyrði húsnæðislána, ekki alveg víst.
 
Hurð Alþingis var vart fallin að stöfum, þegar Arion banki boðar vaxtahækkanir á verðtryggð lán. Í kjölfarið kemur kampakátur Íslandsbanki með opið ginið í bullandi fíkn. Nú skal stela því litla sem eftir er. Sýna meðal-jónum hvar Davíð keypti ölið. Með slagorðinu „kyrkja lýðinn til hlýðni“. Að almúginn hafi vogað sér að taka þátt í mótmælum og sýnt óánægju sína á fjármálakerfi og ríkisstjórn.
 
Græðgin og viðbjóðurinn er orðinn svo gengdarlaus að hinn almenni borgari stendur á öndinni þreifandi í tómið, tilbúinn að selja sál sína fyrir örskammt af súrefni. Á meðan bankarnir fitna og fitna. Þeir hafa aldrei sýnt af sér eins mikinn hagnað og korter fyrir hrun, þá er þjóðinni blæddi næstum út.
 
Þessi ríkisstjórn er ekki að fara gera eitt né neitt annað en að rýja þjóðina inn að skinni. Hún er búin að sýna það í verki og orðum. Það þarf að koma böndum á þessa vitfirru og stoppa þessa sturlun. Nóg er tjónið!

Elsku ríkisstjórn. Þér er hér með sagt upp vegna afglapa í starfi. 
Takk fyrir allt það góða, að ógleymdu ráni og snöru skuldafensins. 

Ykkar einlægur.
Ólafur Ágúst Hraundal


Bloggfærslur 15. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband