4.9.2024 | 09:19
Grímulaus þjófnaður.
Er litla fallega eyjan Ísland, spillinga- og þjófabæli auðvaldsins?
Segum stopp við þjófnaðinum, við þurfum ekki að horfa mjög langt frá okkur í samtímanum til að sjá spillinguna og rányrkjuna sem er að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Horfum til Rússlands þar sem auðlindir og eigur ríkisins voru seldar eða gott sem gefnar til þeirra sem voru innmúraðir ríkisvaldinu og Venesúela þar sem öllu hefur verið rænt.
Við Íslendingar eigum að vera ein af ríkustu þjóðum heims. Þar sem við búum á matarkistu fullri af orku. En erum föst í þrælakistu spillingarbælisins. Fiskimiðin voru gefin vinum og vandamönnum þeirra er fóru með ríkisvaldið á þeim tíma. Núna eru menn farnir að tala um að einkavæða vindorkuna sem fer allt um allt og ekki enn komið vitrænt lagaumhverfi í kringum. Ríkisstjórnin er langt komin með að selja Íslandsbanka til velvalda flokkslima og eru leynt og ljóst að skrifa handrit að sölu Landsbankans.
Það er ekki svo langt síðan að Landsbankinn var neyddur í kaup á TM tryggingingum í einni ofbeldisfléttu elítunar og fyrrum hrunmanna. Það er alveg ótrúlegt að þurfa alltaf að selja það sem best gefur, sjálfa mjólkurkúna. Ef við lítum aðeins í baksýnisspegilinn þá er ekki langt síðan að þjóðin fékk skuldir bankana í fangið sem seldir voru útvöldum flokksgæðingum. Afhverju má þessi hagnaður ekki fara inn í samfélagið og um leið lækka þessa himin háu vexti?
Þjóðin verður af milljörðum
Lindarhvoll ehf í eigu ríkisins og Hilda ehf í eigu Seðlabankans. Allt eru þetta félög sem eru í eigu Íslensku þjóðarinnar. Þegar þeir sem stýra þessum félögum eru spurðir um viðskipti sem þar hafa átt sér stað, bera þau fyrir sig minnisleysi. Allt í þoku og þar við situr, þjóðin verður af milljörðum. Þetta er ekkert annað en arðrán um hábjartan dag.
Þeir sem stjórna og stýra okkar fallega landi eru svo skítsama um almúgan sem greiðir fyrir allt sukkið og svínaríið sem þrífst í fjármálakerfi landsins með gatslitna krónu. Enn ein bilunin sem við látum ganga yfir okkur er okkar mælski seðlabankastjóri sem er fyrrverandi meðlimur útrásarkórsins sem sannfærir þjóðina um að hann sé að stíga á bremsu þenslunnar með því að hafa hér himin háa stýrivexti sem eru í raun eldsneyti á verðbólguna sem eru um leið að sliga heimilin og fyrirtæki landsins. Fyrir utan vini hans og þau fyrirtæki sem hafa eignast megin þorra auðlinda og það fjármagn sem er í bönkunum. Það hafa aldrei verið eins miklir innlánsvextir í bankakerfinu sem er eingöngu gert fyrir fjármagnseigendur og vini seðlabankastjóra.
Hvernig má það vera að aumingjastjórnin sé að leyfa lagareldi án endurgjalds? Er það af ótta við að það vilji engin koma út að leika ef tekið er gjald fyrir? Hverjir eru að fá bitlinga? Á meðan eru Norðmenn farnir að setja stopp á lagareldið sem er að eyðileggja fallegu firðina þeirra, og eru þeir þó að taka gjald fyrir hvert tonn. Og það sama á við landeldið. Allt eru þetta auðlindir hvort sem það kemur úr sjó eða landi.
Stígum á þjófabremsuna
Nóg er komið af græðgisvæðingu auðvaldsins sem heldur þjóðinni í öndunarvél þjófanna.
Það er alveg sama hvert litið er þegar það kemur að innviðum samfélagsins það er allt mölétið. Allt fína kerfið sem búið að vera að mata okkur á, það besta í heimi er með innantóma veggi, algjörlega holir að innan. Það er ekkert eðlilegt við það að eigendur útgerða eigi orðið flest öll arðbærustu fyrirtæki landsins.
Það er komin tími á að við stígum á þjófabremsuna og segjum stopp!
Við sem þjóð og samfélag eigum með réttu allar auðlindir landsins, fiskimiðin, raforkuna og vatnsveitur o.s.frv. Hættum að láta þjófana mata okkur af innantómum loforðum og vitfirringu. Nóg er nóg. Segjum stopp og heimtum þjóðnýtingu á þeim auðlindum sem skammsýnu ráðherrar vors lands hafa látið hafa af okkur með klækjum. Eignum samfélagsins er grímulaust stolið!
Almenningur burðast með skömmina
Fáum utanaðkomandi dómstóla þar sem gætt er jafnræðis, enga sérhagsmuni eða vengslatengsl við dómsvaldið. Við viljum ekki festast í þrælarpyttinum. Við sem þjóð og samfélag eigum að kalla eftir nýrri rannsóknarskýrslu um misnotkun á almannafé eftir hrunárin. Það er komin tími á að þessir arðræningjar svari til saka. Og við sem þjóð og samfélag fáum eigur okkar og sjálfstæði til baka.
Almenningur burðast með skömmina í hljóði yfir fjárhagsstöðu sinni. Lánin hækka og kaupmáttur minnkar. Stór hluti almennings hefur varla ofan í sig og á. Eftir að hafa farið eftir helstu fjármálaráðgjöfum glæpakórsins. Að bestu lánin eru óverðtryggð með breytilegum vöxtum og allt komið í skrúfuna. Nú er farin að hljóma ný mantra hjá þessum sömu snillingum þetta er alveg að koma. Þetta minnir óneitanlega á söng greiningardeildar bankanna þegar almenningi var ráðlagt að kaupa í hinum og þessum sjóðum rétt fyrir hrun. Öll rauðu ljósin eru farin að blikka í mælaborðinu. Almenningur er orðin svo dofin af gengdarlausum yfirgangi elítufjármálakefisins. Eða er stokkhólmseinkennið búið að hreiðra um sig í sálarvitund almennings?
Hvenær er nóg, nóg? Hvers vegna er ekkert gert? Búum við kannski í dulbúnu kommúnistaríki í boði sjálfstæðisbaráttunnar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.