3.5.2025 | 08:16
Óstjórn fósturvísa í ræktun Íslenska hestsins
Í náttúrunni eignast hryssa eitt folald á ári. Þannig hefur það verið í þúsundir ára. Þar sem líffræðin hefur ráðið, er samband móður og folalds órjúfanlegt fyrir þroska þeirra beggja. En nú, í skjóli tækni og markaðshyggju, eru þessar forsendur brostnar. Tæknin gerir okkur kleift að margfalda fjölda afkvæma hverrar hryssu frá ári til árs, án þess að um hana sé til nokkurt regluverk eða heildarstefna. Það eru einfaldlega engin mörk.
Hversu mörg folöld getur ein hryssa átt?
Tæknin við fósturvísaflutninga gerir ræktendum kleift að láta eina hryssu framleiða mörg folöld á ári, með því að safna eggjum og flytja frjóvgaða fósturvísa í aðrar hryssur (staðgöngumæður). Þannig er hægt að nýta arfgerð verðmætra hryssa langt umfram það sem náttúran gerði ráð fyrir.
Þetta er ekki lengur ræktun, við erum komin í fjöldaframleiðslu. Og spurningar sem brenna á vörum þeirra sem hugsa til framtíðar: Hver verndar hryssuna? Hver gætir stofnsins?
Engar reglur eða mörk
Engin íslensk lög eða reglugerðir setja takmarkanir á fjölda fósturvísa sem má taka úr hverri hryssu árlega. Engin stefna er til um hvað telst eðlilegt eða hvað telst sjálfbært út frá erfðafræðilegu og siðfræðilegu sjónarhorni. Ætlum við að leyfa markaðnum að móta framtíð íslenska hestsins, hefur sagan ekki kennt okkur að þegar fjárhagslegar freistingar ráða för, víkur velferð og heilbrigð skynsemi fyrir skammtímagróða?
Fingraför líffræðinnar
Rannsóknir á nautgriparækt í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sýnt að þegar örfá naut eru notuð í miklu mæli, lokast blóðlínur og erfðafræðilegur fjölbreytileiki dregst hratt saman. Í grein sem birtist í tímaritinu Animals árið 2001 er varað við því að ofnotkun á fáum gripum í kynbótarstarfi hafa leitt til minnkandi erfðabreytileika, aukinnar tíðni meðfæddra galla og lakari frjósemi.
Er þetta leiðin sem íslenskir hrossaræktendur vilja fara?
Það eru engar reglur og það ekkert hámark á því hversu mörg folöld hver hryssa má eignast á ári. Að taka egg úr hryssum er inngrip.
Hefur verið gerð heildstæð rannsókn á áhrifum endurtekinna inngripa, til dæmis hvort þau geti haft áhrif á frjósemi, hegðun eða jafnvel lífslíkur hryssunnar?
Stofninn sem verslunarvara
Hryssa sem hefur hlotið 1. verðlaun og gefið af sér góð afkvæmi er orðin að gróðatæki án þess að það sé hugsað út í afleiðingar. Með nútímatækni er hægt að fjöldaframleiða erfðaeiginleika hennar í skammsýni, eins og enginn sé morgundagurinn. Þegar hryssa fer að eiga tíu, tuttugu eða fimmtíu afkvæmi á ári, þá erum við að skapa sömu áhættu og með sæðisútrásina frá fáum stóðhestum. Erfðafræðileg þrengsli og einangrun mun koma fram í ræktun framtíðar.
Og í öllu þessu ferli vakna spurningar: Hver gætir þjóðararfsins? Er skynsamlegt að gera íslenska hestinn að afurð sem er orðin meira eins og verksmiðjuframleiðsla? Hver er þá sérstaða íslenska hestsins?
Byrgjum brunninn
Við höfum áður farið í útrás án leikreglna. Við sáum hvernig bankakerfið hrundi þegar stjórntækin voru ekki til staðar. Nú er sama hugsun farin að gægjast inn í hrossaræktina, þar sem tæknin hefur opnað möguleika. En hverjar eru afleiðingarnar?
Æskilegt er að innleiða:
- Reglur um hámarks fjölda fósturvísa, sem má taka úr hverri hryssu á ári.
- Velferð, þar sem gerðar eru kröfur um aðbúnað og verndun hryssunar.
- Siðferðisleg mörk, að erfðabreytileiki stofnsins sé verndaður.
- Stefnu um sjálfbærni í hrossarækt, byggða á náttúrulögmálum, ekki bara markaðshyggju.
Í upphafi skyldi endinn skoða
Íslenski hesturinn hefur staðið af sér eld og ís á okkar harðgerða landi. Hann hefur mótast af náttúrunni, hann á ekki að vera verksmiðjulína útrásarmanna með skammsýna hugsun. Nú stöndum við frammi fyrir tæknibyltingu sem getur skaðað ræktun íslenska hestsins. Áður en við missum okkur í að margfalda afkvæmafjölda íslenska hestakynsins sem framleiðslulínu mamons, verðum við að svara: Hvað telst eðlilegt? Hvað telst siðlegt? Og fyrir hverja erum við að rækta?
Látum græðgi ekki teyma okkur áfram í blindni, hugsum dæmið til enda áður en óafturkræfur skaði verður á íslenskri hrossarækt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning