Framtíðarsýn fangelsismála

Hér verða lagðar fram tillögur að þrepaskiptu umbunarkerfi í íslensku fangelsiskerfi. Tillögurnar byggja á þeirri sýn að fangelsin eigi ekki að vera geymslur eða einangrunarúrræði sem skila einstaklingum verr settum út í samfélagið en þeir voru í upphafi afplánunar. 

Hvatakerfi til eflingar
Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í íslensku samfélagi vegna fangelsismála. Tel ég brýnt að leggja til endurhæfingar sem byggir á ábyrgð, trausti og einstaklingsmiðaðri nálgun. Þrátt fyrir að ýmis úrræði séu fyrir hendi innan íslenska fangelsiskerfisins, þá vantar hvata sem tengir virkni og bataferli fanga í formi umbunar.  

Tengja þátttöku við tækifæri
Fangavist felur í sér tímabundna frelsissviptingu en hún þarf ekki að fela í sér stöðnun. Eins og staðan er í dag eyðir meirihluti fanga tíma sínum í rútínuleysi eða neyslu, með litla sem enga virkni. Það vantar raunveruleg markmið, stuðning og hvata. Afleiðingin er sú að stöðnun eða afturför verður norm, sjálfstraust dvínar og færni til að fóta sig í lífinu að afplánun lokinni minnkar verulega.

Virkni eða ábyrg hegðun skiptir engu máli þegar kemur að dagsleyfum, fjölskylduleyfum eða reynslulausn. Það er aðeins horft á staðlað skjal þar sem eitt á við um alla. Ekki er litið á þátttöku, framfarir eða breytta hegðun.

Það eru engir skýrir hvatar til staðar í núverandi kerfi fyrir fanga að gera betur. Það á að tikka í einhver box fyrir að vera virkur í námi, vinnu, þerapíu eða annarri endurhæfingu sem er í boði. Þess vegna legg ég til þrepaskipts umbunarkerfis með persónulegumati.

Þrepaskipt umbunarkerfi: 

Þrep 1: Virkni og mæting

  • Einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun með mælanlegum markmiðum
  • Þátttaka í námi, starfi eða meðferðarúrræðum
  • Ábyrgt viðmót og jákvæð hegðun

Umbun: Aukinn aðgangur að tómstundum, aukin réttindi innan fangelsis eins og til dæmis leyfi fyrir fartölvu

Þrep 2: Framvinda og árangur

  • Viðvarandi virkni og stöðugleiki metin yfir tiltekið tímabil
  • Mælanlegur árangur eða lokin þátttaka í námskeiðum, verkefnum eða meðferð
  • Endurmat á meðferðaráætlun í samráði við fagfólk

Umbun: Hægt að vinna af sér daga í afplánun, jafnvel opna á helming afplánunar í stað tvo þriðju.Möguleiki á dagsleyfi, flutningur á Vernd eða rafrænt eftirlit

Þrep 3: Traust og undirbúningur að frelsi

  • Þátttaka í starfsþjálfun, samfélagsverkefnum eða styrktum úrræðum utan fangelsis 
  • Lokamat og sjálfsmat í samstarfi við tengilið og stuðningsaðila
  • Tengslamyndun við stuðningsnet utan fangelsis

Umbun: Reynslulausn,aðstoð við atvinnu- og húsnæðisleit og markviss samfélagsaðlögun

Framkvæmd
Tillagan felur í sér að þrepaskipt umbunarkerfi verði innleitt sem tilraunaverkefni í fangelsum undir stjórn Fangelsismálastofnunnar. Þar verði:

  • Þróuð skýr viðmið um þátttöku, umbun og matsferla
  • Sett upp rafrænt skráningarkerfi
  • Unnið í samráði við fanga, fagfólk, sjálfboðaliða og meðferðaraðila
  • Skilgreind ábyrgð fagfólks og stofnana á eftirfylgni
  • Árangur metinn út frá fyrirfram ákveðnum mælikvörðum

Að lokinni tilraun verði kerfið metið með tilliti til hegðunar innan fangelsis, árangurs úrræða, endurkomutíðni og samfélagsaðlögunar eftir afplánun.

Til umhugsunar
Ef við ætlum að bæta íslenskt refsivörslukerfi þá verðum við að hætta að líta á afplánun sem geymslu. Við verðum að tryggja að þeir sem vilja axla ábyrgð fái raunverulegt tækifæri til að breyta lífi sínu ekki einungis til að afplána, heldur til að byggja sig upp. Uppbygging ætti að vera meginmarkmið í meðferð fanga.

Með þrepakiptu umbunarkerfi sköpum við aðstæður þar sem fangelsi verða ekki lengur geymslur heldur virkar miðstöðvar endurhæfingar, með það markmið að endurbyggja, bæta og gera einstaklinginn hæfari til að takast á við sjálfan sig þar sem hann hefur öðlast verkfæri sem byggja á von, trú og trausti.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband